Leitar árásarmannanna

Lögregla leitar nú að þeim sem skutu tvo lögreglumenn í Ferguson Missouri aðfararnótt fimmtudags og hafa verið settar upp varnargirðingar í kringum lögreglustöðina í bænum og dómshúsið. Bandaríkjaforseti, Barack Obama, fordæmir skotárásirnar sem og dómsmálaráðherrann Eric Holder. 

Þrír hafa verið yfirheyrðir vegna skotárásanna en enginn hnepptur í varðhald, samkvæmt fréttum fjölmiðla í St Louis. Lögreglumennirnir tveir voru skotnir þar sem þeir stöðu vörð vegna ótta um að óeirðir myndu brjótast út í bænum á miðvikudagskvöldið. Fyrr um kvöldið hafði lögreglustjóri bæjarins sagt af sér og var mikil spenna meðal fólks sem kom saman fyrir utan lögreglustöðina.

Þeim sem veitt geta upplýsingar um þá sem skutu lögreglumennina tvo, annan í andlitið og hinn í öxlina, er heitið 10 þúsund Bandaríkjadölum í verðlaun.

Ferguson hefur verið áberandi í umræðunni um lögregluofbeldi en alls búa 21 þúsund í bænum. Þar er mikill meirihluta íbúa svartur og þegar hvítur lögreglumaður skaut óvopnaðan átján ára svartan pilt til bana í ágúst brutust út óeirðir þar sem og víðar í Bandaríkjunum. 

Í síðustu viku var birt skýrsla sem unnin var á vegum dómsmálaráðuneytið sem sýnir að kynþáttahatur þrífst meðal lögreglumanna og að langflestir lögreglumanna séu hvítir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert