ÞSSÍ sameinað utanríkisráðuneytinu

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Eggert

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem studdist m.a. við úttekt á skipulagi þróunarsamvinnu, friðargæslu og neyðar- og mannúðaraðstoð íslenskra stjórnvalda.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að öll starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, ÞSSÍ, færist til utanríkisráðuneytisins, að stofnuð verði ný þróunarsamvinnunefnd, og að breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi Íslensku friðargæslunnar.

„Megintillaga frumvarpsins um að færa starfsemi ÞSSÍ til utanríkisráðuneytisins miðar að því að einfalda skipulag til að hámarka árangur af þróunarsamvinnu og nýta þá fjármuni sem íslensk stjórnvöld veita til málaflokksins sem best.

 Með sameiningu næst betri heildarsýn yfir málaflokkinn, samhæfing og skilvirkni efld, komið veg fyrir skörun verkefna og dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun,“ segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins. Í henni segir jafnframt að við sameininguna verði öllum starfsmönnum ÞSSÍ boðin sambærileg störf í ráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert