Lést Anne Frank mánuði fyrr?

Anna Frank.
Anna Frank.

Talið er að dagbókarritarinn Anna Frank hafi hugsanlega látist um mánuði fyrr en gert hefur verið ráð fyrir til þessa. Anna lést í útrýmingarbúðum nasista í Bergen-Belsen í síðari heimsstyrjöldinni eftir að hafa verið í felum árum saman í Hollandi ásamt fjölskyldu sinni.

Fram kemur í frétt AFP að niðurstöður nýrrar rannsóknar bendi til þessa en yfirleitt hefur verið miðað við að hún hafi látist 31. mars 1945 ásamt systur sinni Margot. Rauði krossinn taldi á sínum tíma að þær hefðu látist á tímabilinu 1.-31. mars. Samkvæmt rannsókninni létust þær að öllum líkindum í febrúar en ar er byggt á upplýsingum frá Rauða krossinum og öðrum heimildum sem og frásögnum þeirra sjónarvotta sem lifðu af helförina.

Fjórir sjónarvottar sögðu að Anna og Margot hefðu sýnt einkenni flekkusóttar í lok janúar 1945 en flestir sem látast af völdum sjúkdómsins gera það um 12 dögum eftir að fyrstu einkenni koma fram samkvæmt niðurstöðunum. Þar af leiði að ólíklegt sé að systurnar hafi enn verið á lífi í lok mars. Þá segir að nákvæm dagsetning sé eftir sem áður óþekkt en haft er eftir einum sjónarvottinum Rachel van Amerongen: „Einn daginn voru þær einfaldlega ekki þarna lengur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert