Frakkar slegnir vegna morðsins

Talið er að 5 þúsund manns hafi tekið þátt í samstöðugöngu í borginni Calais í Frakklandi í minningu níu ára stúlku, Chloe, sem var myrt í gær eftir að henni hafði verið nauðgað. Lík hennar fannst nakið í skógi skammt frá leikvelli sem hún var stödd á þegar henni var rænt. Tæplega fertugur pólskur karlmaður hefur viðurkennt að hafa myrt hana.

Fram kemur í frétt AFP að Frakkar séu slegnir vegna morðsins á Chloe. Maðurinn sem viðurkennt hefur að hafa myrt stúlkuna á að baki langan afbrotaferil samkvæmt fréttinni. Hann var tekinn höndum í gærkvöldi í skóginum þar sem líkið fannst og játaði verknaðinn í kjölfarið. Chloe var að leika sér á leikvellinum með vinkonu sinni í gær þegar hún gekk til manns sem hafði stöðvað bifreið sína til þess að drekka bjór. Hún spreyjaði á hann með vatnsbyssu.

Maðurinn sagði lögreglunni að hann hefði gripið Chloe í kjölfarið og neytt hana til þess að fara inn í bifreiðina. Hann hafi síðan ekið út í skóginn og nauðgað henni og síðan myrt hana. Móðir stúlkunnar varð vitni að því þegar henni var rænt. Lögreglan hóf þegar leit og fann lík stúlkunnar í kjölfarið. Rannsókn hefur leitt í ljós að Chloe var kyrkt. Bifreið mannsins fannst skammt frá og síðan hann sjálfur. Maðurinn viðurkenndi strax að hafa átt þátt í dauða stúlkunnar.

Frétt mbl.is: Hvernig getur svona gerst?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert