Hermenn fá ekki að fara á skemmtistaði

Á mánudag hefst stór, árleg hernaðaræfing filippseyskra og bandarískra hermanna …
Á mánudag hefst stór, árleg hernaðaræfing filippseyskra og bandarískra hermanna á Filippseyjum. AFP

Hernaðarstjórn bandaríska hersins á Filippseyjum hefur ákveðið að banna hermönnum að heimsækja bari og skemmtistaði í landinu þegar þeir eru í vaktafríi. Ástæðan er dómsmál sem nú stendur yfir þar sem bandarískur hermaður er grunaður um að hafa myrt filippseyska transkonu sem hann kynntist á skemmtistað.

Mörg þúsund bandarískir og filippseyskir hermenn eru nú staddir í landinu til þess að taka þátt í tíu daga hernaðaræfingu sem haldin er árlega. „Allir verða að skila sér í háttinn klukkan 22. Enginn má heimsækja skemmtistað eða bar,“ segir Alex Lim, talsmaður bandaríska hersins, í samtali við AFP.

Auk bar-bannsins verður hermönnum meinað að heimsækja matsölustaði, þeir verða þess í stað að borða allar máltíðir sínar á hótelinu þar sem þeir dveljast. 

Joseph Scott Pemberton var handtekinn nýlega, grunaður um að hafa myrt transkonu sem hann kynntist á skemmtistað í október á síðasta ári. Réttarhöld standa nú yfir í bænum Olongapo. 

Lim vill ekki gefa upp hvers vegna reglurnar hafa nú verið hertar, en talið er nokkuð augljóst að réttarhöldin séu hin raunverulega ástæða. 

Hernaðarandstæðingar hafa gagnrýnt bandaríska herinn og hefur morðið verið vatn á myllu þeirra. Mótmæli hafa verið haldin þar sem fólk hefur gengið um stræti bæjarins og krafist þess að varnarsamningur ríkjanna verði felldur úr gildi og að bandaríski herinn fari á brott.  

Filippseyski herinn er hins vegar afar fámennur og hefur landið átt í langvarandi deilum við Kínverja vegna landamæra. Þess vegna hafa yfirvöld viljað halda í samstarf sitt við Bandaríkjamenn, og raunar auka það til muna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert