Lést í ofni með 5 tonnum af túnfiski

Fyrirtækið selur meðal annars túnfisk í dós.
Fyrirtækið selur meðal annars túnfisk í dós.

Bandaríska fyrirtækið Bumble Bee Foods og tveir stjórnendur þess hafa verið ákærðir fyrir að hafa brotið öryggisreglur þegar starfsmaður fyrirtækisins var lokaður inni í stórum iðnaðarofni með fimm tonnum af túnfiski og kveikt var á honum svo maðurinn lést. 

Hinn 62 ára gamli Jose Melena var að vinna að viðhaldi á tíu metra löngum ofni í húsnæði fyrirtækisins í Santa Fe Springs þann 11. október 2012, þegar samstarfsfélagi hans, sem hélt að Melena væri á klósettinu, fyllti ofninn af túnfiski og kveikti á honum. 

Þegar yfirmaður áttaði sig á því að Melena væri horfinn var gefin út tilkynning til starfsmanna sem leituðu að honum í húsnæðinu og á bílastæðinu þar fyrir utan. Lík hans fannst tveimur tímum síðar eftir að slökkt var á ofninum, sem náði mest 270 gráðu hita, og hann var opnaður. Líkið var mjög alvarlega brennt.

Fyrirtækið, einn framkvæmdastjóri þess, Angel Rodriguez, og fyrrum öryggisstjóri, Saul Florez, voru kærð fyrir að brjóta reglur um öryggi á vinnustað sem leiddi til dauða mannsins. Mennirnir gætu átt yfir höfði sér þriggja ára fangelsi og háar fjársektir.

Stjórnendur fyrirtækisins segja öryggisreglur hafa verið hertar eftir slysið. „Við erum ennþá í miklu áfalli eftir að hafa misst samstarfsfélaga okkar, Jose Melena, í þessu hræðilega slysi,“ sagði í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. „En við erum ósammála og vonsvikin með ákærurnar,“ sagði þar jafnframt, en fyrirtækið hyggst áfrýja dómum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert