Spurning um jafnrétti kynjanna?

Konungshjónin dönsku eru glæsileg og Margrét þykir koma vel fyrir …
Konungshjónin dönsku eru glæsileg og Margrét þykir koma vel fyrir sig orði. Hinrik er mun umdeildari. Skjáskot af vef Politiken.

Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Danadrottningar, ber að eigin sögn ekki nógu virðulegan titil, helst vill hann mega kalla sig konung. Hann barmar sér opinberlega yfir grimmum örlögum sínum.

Skringilegar einveldisleifar frá miðöldum eða skemmtileg hefð sem ber að halda fast í? Konungdæmin eru ekki mörg eftir í heiminum en nokkur lifa enn góðu lífi í Evrópu þótt völdin hafi verið mjög skert.

Svíar hafa gengið einna lengst í þeim efnum, sænski konungurinn hefur nákvæmlega engin völd. En hann getur auðvitað haft einhver áhrif, rétt eins og Elísabet Bretadrottning, ef hann beitir sér af varfærni. Kann sig.

Konur sem giftast krónprinsum verða drottningar þegar prinsinn breytist í konung en öðru máli gegnir þegar drottning á í hlut, nú á seinni öldum. Þá verður bara til „drottningarmaður“. Konungdæmið er óhemju vinsælt í Danmörku, þorri þjóðarinnar vill halda því og Margrét önnur drottning var ákaft hyllt fyrir skömmu þegar hún varð 75 ára. Einn skugga bar á fögnuðinn: Hinrik prins var fjarverandi, var sagður vera með flensu.

Nokkru seinna var skýrt frá því að drottningarmaðurinn hefði farið til Feneyja til að endurheimta kraftana eftir veikindin. Vandinn er að ef marka má kannanir trúir aðeins lítill minnihluti Dana því að hann hafi verið raunverulega veikur.

Flestir segja að hann hafi verið að andmæla því að hafa ekki enn fengið titilinn konungur eða a.m.k. „kongegemal“, upp á dönsku. Núverandi titill hans í fjölmiðlum er oftast prinsgemal en formlegur titill er Hans konunglega tign Hinrik prins af Danmörku.

Óánægja Hinriks með að bera ekki konungstitil hefur verið öllum kunn frá 1996. Fyrir 13 árum var haldin nýársveisla í höllinni og þá var hann ósáttur við að vera númer þrjú í tignarröðinni, á eftir eiginkonunni og Friðriki krónprinsi sem var staðgengill móður sinnar er ekki gat mætt. Lét Hinrik óánægju sína óspart í ljós við fjölmiðla, sagðist vera settur til hliðar. Prinsinn segir að um jafnréttismál sé að ræða, hann sé eins og „ómerkilegt viðhengi“.

Löðrungar – og þjónar

Hinrik, sem varð áttræður í fyrra, er franskur að uppruna. Áður en hann gekk að eiga Margréti, þáverandi krónsprinsessu, árið 1967 hét hann Henri de Laborde de Monpezat og var titlaður greifi. En komið hefur síðar í ljós að umræddur greifatitill á sér hæpnar forsendur, mun aldrei hafa verið staðfestur í Frakklandi.

Hinrik er alinn að hluta til upp í Víetnam þar sem faðir hans var diplómati og Hinrik talar nokkur asísk tungumál. Hann hefur gefið út matreiðslubók og haldið málverkasýningu, í sjónvarpsþætti leiddi hann áhorfendur út í matjurtagarðinn sinn.

Þar til á þessu ári rak Hinrik auk þess vínbúgarð í Frakklandi. En danskan hefur reynst honum nokkuð erfið og Hinrik hefur að sumu leyti gengið illa að laga sig að dönskum þankagangi. Frægt varð þegar hann sagðist álíta sjálfsagt að flengja óþekk börn, þau yrði að temja eins og hunda. Hann hefði sjálfur fengið sína löðrunga í æsku og þeir ekki skaðað hann. „Hinrik prins lemur börnin sín!“ var risafyrirsögn Ekstrabladet.

Fyrir skömmu kom út bók um prinsinn þar sem haft var eftir honum að þegar hann var unglingur í Víetnam hefði þjónn boðist til að kaupa handa honum vændiskonu. Og Hinrik stóðst ekki mátið. Einhverjum fannst að þessi bersögli væri „upassende“ fyrir virðulegan prins.

Setja þarf sérstök lög ef Hinrik á að fá konungstitil og enginn vafi er á því að Margrét drottning gæti komið því til leiðar. En fréttamannafundur í janúar vegna væntanlegrar heimsóknar hjónanna til Hollands endaði með vandræðalegri uppákomu.

Hinrik byrjaði skyndilega að tala um að Maxima, sem giftist konungi Hollands, væri nú í kjölfarið orðin drottning. „Af hverju á ég að vera lægra settur en konan mín?“ spurði Hinrik, eins og út í loftið. „Hvers vegna geta Danir ekki gert eins og Spánverjar fremur en Englendingar?“ spurði Hinrik en drottning Spánar fékk titilinn þótt hún sé ekki konungborin.

Margréti leið greinilega ekki vel, hún starði fyrst á gólfið, iðaði á stólnum, lagði loks handlegg á bakið á manni sínum, eins og til að reyna að stöðva hann.

Hinrik fær varla konungstitil á næstunni. Nýjar kannanir sýna að mjög fáir Danir vilja að ósk hans verði fullnægt. Og Ekstrabladet hótar að gera gys að honum með því að kalla hann ávallt „Kong Henrik“. Sumir Danir velta því nú fyrir sér í blaðagreinum hvort hegðun Hinriks og fleira sem fjölskyldan hefur verið gagnrýnd fyrir geti grafið undan konungdæminu.

Hundurinn bítur!

Götublöðin í Danmörku eru óvægin í garð Hinriks prins sem á nokkra hunda. Fyrir tæpum áratug viðurkenndi hann í viðtali að hafa borðað hundakjöt, sagði það smakkast eins og gott kálfakjöt. Hann sagðist ekki sjá neitt rangt við þetta. En blöðin hundskömmuðu prinsinn.

Eftirlætishundur prinsins, langhundurinn Evita, hefur þrisvar bitið lífverði og garðyrkjumenn svo harkalega í fæturna að kalla þurfti til lækni. En má í neyð leysa vandann með því að aflífa Evitu? Mjög flókið, segir lögfræðingur lögreglunnar. Sérreglur gilda um konungsfjölskylduna og sem eign hennar er Evita nánast hafin yfir lögin.

Margrét Danadrottning mætir til kvöldverðar í tilefni af 70 ára …
Margrét Danadrottning mætir til kvöldverðar í tilefni af 70 ára afmæli sínu. Prinsinn var heima með flensu. AFP
Margrét og Hinrik.
Margrét og Hinrik. AFP
Margrét Danadrottning.
Margrét Danadrottning.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert