Losunarmarkmiðin ófullnægjandi

Losunarmarkmið þjóða heims eru ekki í samræmi við þann samdrátt …
Losunarmarkmið þjóða heims eru ekki í samræmi við þann samdrátt í losun sem er nauðsynlegur til að forðast verstu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. AFP

Áform ríkja heims um að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum eru alls ekki nægilega metnaðarfull til að draga nógu mikið úr styrk koltvísýrings í lofthjúpi jarðar svo að hægt verði að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu um loftslagsmál.

Sé miðað við þau fyrirheit sem þjóðarleiðtogar hafa gefið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur hnattrænni hlýnun gæti losunin numið um 57-59 milljörðum tonna koltvísýringsígilda árið 2030, að því er kemur fram í skýrslu fræðimanna við London School of Economics and Political Science. Nicholas Stern, fyrrverandi varaforseti Alþjóðabankans er á meðal höfunda hennar.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hins vegar áætlað að losunin þurfi að minnka niður í um 32-44 miljarða tonna fyrir 2030 svo að meiri en helmingslíkur verði á því að meðalhlýnun jarðar frá því fyrir iðnbyltingu verði innan við 2°C eins og ríki heims stefna að. Losunin árið 2010 nam 50 milljörðum tonna.

Í skýrslunni kemur fram að Bandaríkin, Kína og Evrópusambandið, stórtækustu losarar gróðurhúsalofttegunda í heiminum. stefni nú að losun sem gæti numið á milli 20,9-22,3 milljörðum tonna árið 2030. Það þýðir að til að ná markmiðum um að halda loftslagsbreytingum í skefjum mega önnur lönd ekki losa meira en 23 milljarða tonna, sé miðað við efri mörk áætlana SÞ. Miðað við þau losunarmarkmið sem þau hafa sett sér verður losun þeirra hins vegar nær 35 milljörðum tonna.

Þetta þýðir samkvæmt skýrsluhöfundum að „verulegar líkur“ séu á því að hlýnun jarðar muni nema meira en 2°C. Loftslagsnefnd SÞ áætlar að hlýnunin gæti numið allt að 4,8°C á þessari öld sem hefði alvarlegar afleiðingar eins og versnandi þurrka og flóð auk verulegrar hækkunar á yfirborði sjávar í för með sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert