Vilja samkomulag fyrir mánaðarlok

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Ríkisstjórn Grikklands vill ná samkomulagi við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrst, helst fyrir lok mánaðarins, um lánafyrirgreiðslu. Það styttist óðum í að Grikkir verði uppiskroppa með fé.

Þeir þurfa að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,5 milljarða evra hinn 5. júní næstkomandi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Gabriel Sakellaridis, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði í dag að það væri nauðsynlegt að ná samkomulagi strax.

Fyr­ir rúmri viku viður­kenndu stjórn­völd í Grikklandi að þau hefðu gripið til þess að taka fé úr neyðarsjóðum til þess að greiða af lán­i til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og koma þar í veg fyr­ir að rík­inu verði gert að yf­ir­gefa evru­sam­starfið vegna fjár­skorts.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ESB hafa lagt áherslu á að ljúka samningaviðræðum við Grikki áður en ákvörðun verði tekin um að veita þeim frekari lán upp á 7,2 milljarða evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert