„Ég vil deyja í borginni minni“

Íbúar Palmyra fyrr í vikunni.
Íbúar Palmyra fyrr í vikunni. AFP

„Þeir eru allstaðar,“ segir 26 ára gamall íbúi sýrlensku borgarinnar Palmyra, aðspurður hvort að meðlimir Ríkis íslams séu áberandi í borginni, en Ríki íslams hefur nú náð fullum yfirráðum þar.

Hryðjuverkasamtökin eru talin ógna fornum minjum í borginni sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Stjórn Sameinuðu þjóðanna og stjórnvöld í Sýrlandi hafa lýst yfir áhyggjum þess efnis að liðsmenn samtakanna muni skemma fornminjarnar, rétt eins og þeir gerðu í Mosul í Írak og Nimrud. 

Palmyra er þó ekki aðeins heimili fornminja, heldur tugi þúsunda íbúa. Margir hafa flúið en fjölmargir íbúar eru enn í borginni, rétt eins og maðurinn sem ræddi við CNN. Hann óskaði eftir því að koma ekki undir nafni en lýsti því hvernig hann leitaði nú skjóls ásamt fimmtíu öðrum í einu húsi. Hann, aðrir fjölskyldumeðlimir og nágrannar hans hafa ýmist þurft að flýja heimili sín eða misst þau í átökunum. Íbúarnir óttast það að matur í borginni muni klárast fljótlega. 

Eftir að minnsta kosti 100 sýrlenskir hermenn létust í átökunum í Palmyra, sýrlenskar herþotur gerðu loftárásir á svæðið. Ekki liggur þó fyrir hvort að hersveitir Sýrlands muni reyna aftur að ná yfirráðum í borginni. Jafnframt er efast um að Bandaríkin muni reyna að aðstoða fólkið í Palmyra.

„Heiminum er sama um okkur,“ sagði maðurinn. „Það eina sem þeir hafa áhuga á eru fornminjar.“ Maðurinn segist þó ekki vilja yfirgefa borgina þrátt fyrir ömurlegt ástand sem þar hefur myndast eftir komu Ríkis íslams með húsleitum og ofbeldi.

„Ég vil ekki fara. Ég vil deyja í borginni minni.“

Umfjöllun CNN í heild sinni má sjá hér. 

Palmyra er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.
Palmyra er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert