Barnabarn Jean-Marie Le Pen í fótspor afa síns

Marion Maréchal Le Pen, barnabarn Jean-Marie Le Pen og frænka …
Marion Maréchal Le Pen, barnabarn Jean-Marie Le Pen og frænka Marine Le Pen, núverandi leiðtoga Front National í Frakklandi. AFP

Marion Maréchal Le Pen er aðeins 25 ára gömul en margir spá henni mikilli framtíð í frönskum stjórnmálum. Hún er barnabarn Jean-Marie Le Pen, sem stofnaði fyrir 40 árum síðan flokkinn Front National, og nú hefur Marion ákveðið að taka fyrrum sæti afa síns á lista flokksins fyrir fylkiskosningarnar í Provence-Alpes-Cote sem haldnar verða í desember.

„Það er mikilvægt fyrir fjölskylduna að einhver Le Pen sé í framboði til þess að halda hefðinni áfram. Marion er mun minna umdeild innan flokksins heldur en afi hennar og hún á raunverulegan möguleika á að sigra. Fjölskylda hennar hefur vægast sagt orsakað fjaðrafok í landinu,“ segir Franck Orban, sérfræðingur í frönskum stjórnmálum í samtali við Dagbladet.

Marine Le Pen, sem er dóttir Jean-Marie varð formaður flokksins árið 2011 og vann flokkurinn stóran sigur í síðustu Evrópuþingskosningum í landinu. Marine og pabbi hennar eru þó ekki sammála um leiðina fram á við, og hafa þau rifist heiftarlega undanfarið. Marine er náfrænka Marion.

Jean-Marie olli miklum deilum innan flokksins fyrr á þessu ári þegar hann sagði ofsóknir gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni vera aðeins „sögulega neðanmálsgrein.“ Var honum vikið úr flokknum sem hann stofnaði fyrir 40 árum síðan auk þess sem hann missti titilinn sem heiðursforseti flokksins.

Orban segir að Marion og frænka hennar Marine séu hins vegar ekki óvinir, þrátt fyrir að margir telji að valdabarátta þeirra á milli gæti hafist eftir nokkur ár. „Ef Marion vinnur kosningarnar í desember þá væri það mjög sterkt veganesti fyrir flokkinn fyrir næstu forsetakosningar árið 2017,“ segir Orban.

Marion ásamt afa sínum, Jean Marie.
Marion ásamt afa sínum, Jean Marie. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert