Njósnir leyfðar að nýju

Atkvæði voru greidd um frumvarpið á þinginu í gærkvöldi.
Atkvæði voru greidd um frumvarpið á þinginu í gærkvöldi. AFP

Öldungadeild bandaríska þingsins hefur samþykkt ný lög sem nefnd eru frelsislögin. Taka þau við af föðurlandslögunum svokölluðu sem heimiluðu bandaríska ríkinu víðtækar njósnir eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana hinn 11. september árið 2001.

Frelsislögin veita ríkinu takmarkaðri heimildir en föðurlandslögin. Ein helsta breytingin felst nú í því að í stað þess að bandaríska þjóðaröryggisstofnunin NSA safni saman upplýsingum um símanotkun borgaranna kemur það í hlut síma- og fjarskiptafyrirtækjanna að geyma slíkar upplýsingar. Fyrirtækin höfðu sjálf kallað eftir slíkri breytingu.

Rand Paul, þingmaður frá Kentucky og tilvonandi forsetaframbjóðandi repúblikana, stóð um helgina fyrir málþófi á þinginu til þess að koma í veg fyrir að ný lög sem heimiluðu njósnir yrðu samþykkt. Það tókst að hluta til þar sem föðurlandslögin runnu úr gildi á miðnætti á sunnudaginn. Voru því um skamma hríð engin lög í gildi sem heimiluðu njósnir en því hefur nú verið breytt. Paul telur að lögin sem um ræðir brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti borgaranna.

Frelsislögin voru samþykkt í gær með 67 atkvæðum gegn 32. Af þeim sem kusu gegn lögunum voru þeir fjórir sem töldu þau ekki heimila nægilega víðtækar njósnir. Skömmu eftir atkvæðagreiðsluna skrifaði Obama undir og samþykkti þar með lögin. „Eftir tilgangslausa töf og óafsakanlegt hrun þjóðaröryggisins í skamma stund höfum við nú aftur þau tæki og tól sem við þurfum til þess að vernda landið,“ sagði Obama við undirritunina.

Lagabreytingin, sem felur í sér minni heimildir til persónunjósna, kemur til eftir að ný kynslóð þingmanna úr bæði hópi demókrata og repúblikana tók sig saman. „Þjóðaröryggi og friðhelgi einkalífs er ekki alveg sitt hvor hluturinn,“ segir James Lankford, fulltrúi repúblikana í öldungadeildinni. „Við getum haft öryggisráðstafanir með skynsamlegri gagnaöflun á sama tíma og við virðum frelsi löghlýðinna borgara.“

Sjá frétt New York Times

Rand Paul, tilvonandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, barðist gegn frumvarpinu sem heimilar …
Rand Paul, tilvonandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, barðist gegn frumvarpinu sem heimilar bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni njósnir að nýju. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert