Kallaði fjöldamorðin „rasískt hryðjuverk“

Clinton ræðir við stuðningsmenn sína í Missouri í dag.
Clinton ræðir við stuðningsmenn sína í Missouri í dag. AFP

Hillary Clinton, sem sækist nú eftir því að vera forsetaefni demókrata í forsetakosningum í Bandaríkjunum á næsta ári, kallaði fjöldamorðin sem framin voru í Charleston í Suður Karólínu í síðustu viku „rasískt hryðjuverk“ í dag. Hefur hún jafnframt kallað eftir því að suðurríkjafáninn verði fjarlægður af öllum opinberum lóðum í landinu.

Clinton hélt erindi í kirkju í Florissant í Missouri í dag. Þar sagði Clinton að bandaríska þjóðin væri að reyna að skilja fjöldamorðin en níu voru skotnir til bana í kirkju. Öll fórnarlömbin voru þeldökk og grunur liggur á að sá sem beri ábyrgð á árásinni sé ungur kynþáttahatari.

„Þetta kvöld, fregnir af morðunum hæfðu mig eins og högg í sálina. Hvernig eigum við að skilja svona illan verknað, rasísk hryðjuverk sem framin voru í húsi guðs?“ spurði Clinton í dag.

Hún sagði jafnframt að morðin sýndu hversu rótfastir kynþáttafordómar eru í Bandaríkjunum.

„Ég veit að það er freistandi að líta á þetta sem einstakt atvik, að trúa því að í Bandaríkjum dagsins í dag, séu fordómar í fortíðinni. Það að kynþáttafordómar séu ekki lengur til,“ sagði hún.

„En þrátt fyrir okkar bestu tilraunir og hæstu vonir, þá er þessi langa barátta kynþátta í Bandaríkjunum langt frá því að vera búin.“

Clinton hélt erindi sitt í kirkju í aðeins sex kílómetra fjarlægð frá borginni Ferguson. Það vakti heimsathygli í ágúst á síðasta ári þegar að óvopnaður svartur unglingsdrengur var skotinn til bana af hvítum lögreglumanni í borginni. Það atvik varð til mikilla mótmælta í Bandaríkjunum og umræðu um tengsl kynþátta í landinu.

Ódæðið sem framið var í Charleston í síðustu viku hefur vakið upp umræðu um suðurríkjafánann og hvort hann eigi rétt á sér vegna þeirra kynþáttafordóma sem hann stendur fyrir að mati margra. Þar á meðal er ríkisstjóri Suður Karólínu, Nikki Haley, sem fyrirskipaði að suðurríkjafáninn yrði fjarlægður af öllum opinberum lóðum í höfuðborg fylkisins, Columbia.

Clinton sagðist í dag styðja ákvörðun Haley og sagði að fáninn væri tákn fyrir „fordóma í fortíð landsins sem ættu sér engan stað í nútíð þjóðarinnar eða framtíð.“

„Hann ætti ekki að vera við hún þar, hann ætti hvergi að vera við hún,“ bætti Clinton við.

Hún fagnaði jafnframt ákvörðun bandarísku verslunarkeðjanna Walmart, Amazon, eBay og Sears um að fjarlægja vörur með fánanum.

Clinton, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi þingmaður, hefur kallað eftir því að byssulöggjöf í Bandaríkjunum verði hert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert