Ræða áfram um skuldir Grikkja í dag

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Viðræður um skuldavanda Grikklands halda áfram í dag þar sem reynt verður að koma saman samkomulagi á milli alþjóðlegra lánadrottna landsins og ríkisstjórnar þess um frekari lánveitingar gegn því að ráðist verði í viðamiklar aðhaldsaðgerðir.

Grikkir þurfa að greiða háar afborganir um næstu mánaðarmót sem þeir geta ekki staðið við fái þeir ekki frekari lánafyrirgreiðslur. Takist það ekki lendir Grikkland í greiðsluþroti sem talið er að gæti leitt til þess að landið verði að yfirgefa evrusvæðið.

Bjartsýni hefur ríkt að undanförnu um að hægt verði að landa samkomulagi en forsenda þess er að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, takist að sannfæra flokk sinn Syriza um að fallast á þær aðhaldsaðgerðir sem alþjóðlegir lánadrottnar landsins hafa farið fram á.

Haft er eftir ónafngreindum grískum embættismanni í frétt AFP að ekki vanti mikið upp á að samkomulag náist. Þá er rifjað upp að efnahagsmálastjóri Evrópusambandsins, Pierre Moscovici, hafi lýst því yfir við fjölmiðla í gær að hann væri sannfærður um að það tækist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert