Að minnsta kosti 27 látnir

Ferðamenn á ströndinni í Sousse. Myndin er úr safni.
Ferðamenn á ströndinni í Sousse. Myndin er úr safni. AFP

27 eru sagðir hafa látist í hryðjuverkaárás á tvö strandhótel í Túnis í dag. Byssumenn hófu meðal annars skotárás úr bátum sem lögðu að ströndinni við hótelin. Annað hótelanna heitir Imperial Marhaba Hotel og eru þau bæði í bænum Sousse. Flest fórnarlömbin voru þýskir og enskir ferðamenn að sögn túnisku útvarpsstöðvarinnar Mosaique. Fólk flúði af ströndinni og inn á hótel þar sem það bíður milli vonar og ótta. Einn ferðamaður segir að sonur sinn hafi verið drepinn í flæðarmálinu.

Sjá frétt mbl.is: Öngþveiti í kjölfar árásar

Er þetta í annað skiptið á þremur mánuðum sem hryðjuverkaárás er gerð í Túnis því í mars á þessu ári réðust vopnaðir menn inn á safnið Bardo í Túnisíu, höfuðborg landsins, og tóku 17 manns í gíslingu. Endaði gíslatakan á því að allir gíslarnir voru teknir af lífi. Þeir árásarmenn voru vopnaðir Kalashnikov-rifflum. Voru þar að verki þrír til fimm hryðjuverkamenn. Tveir árásarmannanna létust á staðnum.

Fregnir herma að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafi viðurkennt að bera ábyrgð á árásinni. Það hefur hins vegar ekki fengist staðfest hjá yfirvöldum í Túnis. Heimildir herma að yfirvöld telji hryðjuverkasamtökin Okba Ibn Nafaa bera ábyrgð á árásunum en þau tengjast al-Kaída. 

Dagblaðið Verdens gang ræddi við Norðmann sem staddur er skammt frá vettvangi umræddra viðburða. Hann segir að búið sé að loka svæðinu algjörlega og enginn komist inn né út.

Breskur ferðamaður sem Sky News ræddi við segist hafa þurft að læsa sig inni í herberginu sínu. Hann var staddur á ströndinni þegar hann heyrði skothvelli. Hann hélt fyrst að um væri að ræða litla flugelda. „Síðan tók við fjöldaflótti frá ströndinni upp á hótel,“ segir hann við Sky News. 

Sonur hans segist hafa séð mann skotinn á ströndinni. Hótelstarfsmenn ráðlögðu fólki að læsa sig inni á hótelherbergjum. 

Fréttin verður uppfærð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert