Gjaldeyrishöft í Grikklandi

Alexis Tsipras hélt ávarp í kvöld þar sem hann greindi …
Alexis Tsipras hélt ávarp í kvöld þar sem hann greindi frá því að gjaldeyrishöft yrðu sett á í landinu auk þess sem bankar verða lokaðir næstu daga. AFP

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, tilkynnti í kvöld að gjaldeyrishöftum yrði komið á í landinu og að bankar landsins yrðu lokaðir ótímabundið.

Fyrr í dag höfðu sögusagnir farið af stað um að bankar í landinu yrðu lokaðir fram að 5. júlí þegar þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram um aðhaldstillögur Evrópusambandsins. Nú hefur Tsipras staðfest þær fréttir.

Í tilkynningunni, sem sjónvarpað var í beinni útsendingu í Grikklandi í kvöld, kennir Tsipras Evrópska seðlabankanum um ófarirnar. Segir hann stofnunina reyna að grafa undan lýðræði í ríkjum Evrópusambandsins. 

„Evrópska seðlabankanum mun ekki takast að knésetja þjóðina. Hið gagnstæða mun eiga sér stað. Gríska þjóðin mun standa þéttar saman en nokkru sinni fyrr,“ sagði Tsipras.

Í ræðu sinni sagði Tsipras einnig að grískir bankar og innistæður fólk væru öruggar og hvatti hann fólk til þess að halda ró sinni. Hann tók einnig fram að hann hefði í dag óskað eftir áframhaldandi neyðaraðstoð frá kröfuhöfum. Ræðu sinni lauk hann á orðunum: „Við höfum ekkert að óttast nema óttann sjálfan.“

Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins á gríska þinginu, Nýtt lýðræði, kallaði eftir þjóðstjórn eftir ræðu forsætisráðherra og að hætt yrði við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu. „Við viljum hafa landið okkar í hjarta Evrópu og að evran verði hér áfram. Ef hann getur ekki séð til þess sjálfur, ætti hann að íhuga að skipa þjóðstjórn,“ segir Antonis Samaras.

Mótmæli brutust út í dag þegar ungir Marxistar gengu fylktu …
Mótmæli brutust út í dag þegar ungir Marxistar gengu fylktu liði um Aþenu og hvöttu fólk til þess að kjósa Nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 5. júlí. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert