Dæmd til dauða fyrir morð á kennara

Konan í öryggismyndavél verslunarmiðstöðvarinnar eftir að hún framdi morðið.
Konan í öryggismyndavél verslunarmiðstöðvarinnar eftir að hún framdi morðið. AFP

Kona frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum var í dag dæmd til dauða fyrir morðið á bandarískum kennara í verslunarmiðstöð á Reem-eyju í desember síðastliðnum.

Hin þrítuga Alaa Bader al-Hashemi var fundin sek um morðið á hinni 47 ára gömlu Ibolyu Ryan, en hún stakk hana til bana með stórum eldhúshníf á almenningsklósetti í verslunarmiðstöðinni Boutik Mall. 

Al Hashemi sýndi engin svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í hæstarétti Abu Dhabi í dag. Þegar hún var leidd út úr dómsalnum brosti hún svo og veifaði til föður síns og bróður sem voru viðstaddir.

Auk þess að hafa verið fundin sek um morðið var konan fundin sek um að hafa útbúið handgerða sprengju sem hún kom fyrir við heimili egypsk-bandarísks læknis. Sprengjan sprakk hins vegar ekki vegna þess að hún var gölluð.

Þá var hún fundin sek um að hafa notað aðgang á netinu til þess að dreifa upplýsingum sem voru skaðlegar fyrir landið. Loks var hún fundin sek um að hafa sent peninga til Al Qaeda í Yemen vitandi að peningarnir yrðu notaðir í hryðjuverk.

Konan mun ekki geta áfrýjað dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert