18 milljónir fyrir kynferðislega þvingun

Frá Wall Street. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Frá Wall Street. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. AFP

Ungri sænskri konu sem kærði fyrrverandi yfirmann sinn á Wall Street fyrir að hafa þvingað hana til að stunda kynlíf með sér voru dæmdar 18 milljónir dollara í bætur fyrir dómi í New York í dag. Yfirmaðurinn rak konuna eftir að hann komst að því að hún ætti kærasta.

Konan sakaði Benjamin Wey um að misnota aðstöðu sína sem eigandi fjárfestingafyrirtækisins New York Global Group til að neyða hana til kynferðislegra athafna í fjórgang. Konan stefndi Wey til að greiða henni 850 milljónir dollara en dómstóllinn dæmdi henni tvær milljónir í skaðabætur og 16 milljónir til viðbótar í miskabætur vegna kynferðislegrar áreitni, hefndarráðstöfunar og ærumeiðinga. Dómurinn sýknaði manninn hins vegar af kröfum sem vörðuðu líkamsárás og barsmíðar.

Í framburði konunnar kom fram að skömmu eftir að Wey réði hana til fyrirtækisins hafi hann þrálátlega reynt að sofa hjá henni. Hún segir hann hafa rekið sig hálfu ári síðar þegar hún hafði neitað frekari kynferðislegum athöfnum og hann fann annan mann í rúminu með henni í íbúð sem hann hjálpaði konunni að fjármagna. Hann hafi svo hótað henni þegar hann kom á kaffihús sem hún vann á í Stokkhólmi eftir brottreksturinn.

Wey hafi jafnframt reynt að svipta konuna ærunni með því að birta athugasemdir á bloggsíðu hennar um að hún væri lauslát og fjárkúgari. Sjálfur neitar Wey, sem er giftur, því að hafa nokkru sinni átt mök við konuna. Hann segir að konan hafi ekkert vit haft á fjármálum þegar hann réði hana og gerðist lærifaðir hennar. Hún hafi svikið gjafmildi hans með því að tileinka sér gjálífi sem gerði hana of uppgefna til að standa sig í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert