Lifði aðeins 16 mánuði utan fangelsisveggja eftir 30 ár á dauðadeild

Ford beið dauðans í Angola-fangelsi í 30 ár. Hann reyndist …
Ford beið dauðans í Angola-fangelsi í 30 ár. Hann reyndist saklaus af þeim glæp sem hann var dæmdur fyrir en skömmu eftir að hann var látinn laus greindist hann með krabbamein og lést 16 mánuðum síðar. AFP

Glenn Ford lést í gærmorgun, aðeins 16 mánuðum eftir að hafa verið sleppt úr Angola-fangelsinu í Louisiana, þar sem hann varði 30 árum á dauðadeild fyrir morð sem hann framdi ekki. Banamein Ford var krabbamein.

Árið 1984 var Ford sakfelldur fyrir að hafa skotið Isadore Rozeman, úra- og skartgripasmið í Shreveport, til bana. Ford hafði unnið garðvinnu fyrir Rozeman. Hann hélt því staðfastlega fram að hann væri saklaus af morðinu.

Fyrir tveimur árum var dómurinn ógiltur vegna nýrra upplýsinga í málinu, en Ford var þó ekki látinn laus fyrr en í mars í fyrra.

„Þegar ég fór voru synir mínir ungabörn,“ sagði Ford þegar hann var frjáls. „Nú eru þeir fullorðnir menn með ungabörn.“

Fyrr á þessu ári baðst saksóknarinn í máli Ford formlega afsökunar, bæði fyrir sína framgöngu í málinu og fyrir kerfið. Hann sagðist hafa verið hrokafullur og dómharður og að hann hefði haft mun meiri áhuga á því að vinna málið en að sjá réttlætinu fullnægt.

Saksóknarinn heimsótti Ford með sjónvarpsmyndavélar í eftirdragi. Hinn veikburða Ford var kurteis en sagðist ekki geta gleymt því sem hafði hent hann og þeim árum sem tekin hefðu verið af honum.

„Þetta kostaði mig 31 ár af lífi mínu. Mér þykir það leitt. Ég get ekki fyrirgefið þér,“ sagði hann.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/NZt8Sd9Wgu8" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Að sögn stuðningsmanna Ford kvaddi hann þennan heim með umvafinn fólki sem þótti vænt um hann, við uppáhalds lagið sitt.

Independent sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert