Skiptast daglega á kúlnahríð

Maður signar sig í kirkjugarði nærri Donetsk.
Maður signar sig í kirkjugarði nærri Donetsk. AFP

„Þetta lyktar ekki eins og friður,“ segir hinn 47 ára Oleg Gorlenko, fyrrverandi lögreglumaður í Donetsk í Úkraínu. Gorlenko, sem er kallaður „Munkur“ vegna tryggðar sinnar við konu sína, segir skothvelli daglegt brauð í Donetsk, þrátt fyrir yfirlýst vopnahlé.

„Það er oft erfitt að segja til um hver er að skjóta á hvern. Enginn veit hvað hinn er að gera. En þetta er alls ekki vopnahlé,“ sagði Gorlenko í samtali við Guardian. Lögreglumaðurinn fyrrverandi hefur varið meira en ári í að berjast á móti úkraínska hernum.

Eyðileggingin er algjör umhverfis flugvöll borgarinnar. Þrátt fyrir að umfangsmikil átök hafi ekki brotist út í nokkurn tíma, skiptast fylkingar daglega á kúlnahríð. Fátt virðist benda til þess að það sjái fyrir endann á ástandinu.

Samkomulag um vopnahlé í austurhluta landsins var undirritað í febrúar sl. eftir maraþon-fund leiðtoga Úkraínu, Rússlands, Þýskalands og Frakklands. Það fól m.a. í sér brottflutning þungavopna og alþjóðlegt eftirlit með landamærum Úkraínu og Rússlands.

Samkvæmt Guardian nýtur vopnahléið stuðnings allra aðila, tæknilega séð, en enginn virðist hafa raunverulega trú á því að það haldi, né virðast aðrar lausnir í sjónmáli.

„Við erum að eiga við Vladimir Pútín, sem er andlega veikur,“ segir Andriy Gergert, leiðtogi hersveitar sem berst við hlið Úkraínuhers við Mariupol. „Hver veit hvað þeir gera næst?“ Hann dregur ekki dul á það hvernig hann telur að átökin muni enda. „Það eina sem við getum gert er að drepa þá alla. Skrifaðu það niður. Við þurfum að drepa þá alla,“ segir hinn 37 ára Gergert, sem var áður dýraskurðlæknir í vesturhluta landsins.

Alls hafa um 8.000 manns látið lífið í átökunum.

Guardian er með ítarlega frétt um stöðu mála í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert