Danskir starfsmenn Ryanair fá að fara í verkfall

AFP

Danskir starfsmenn lággjaldaflugfélagsins Ryanair fá að fara í verkfall eftir að vinnumarkaðsdómstóll í landinu sló því föstu í dag.

Ryanair hefur hingað til haldið því fram að þeir iðnaðarmenn sem starfa fyrir félagið á Kaupmannahafnarflugvelli ættu ekki verkfallsrétt, auk þess sem flugfélagið þurfi ekki að samþykkja heildstæða kjarasamninga við verkalýðsfélög starfsmannanna. Dómstóllinn sló því föstu að starfsmennirnir ættu rétt á að semja í gegnum verkalýðsfélögin sín.

Hafði Ryanair áður hótað því að ef félagið þyrfti að samþykkja karasamninga í Danmörku myndi það flytja starfsemi sína annað og störf myndu tapast í Kaupmannahöfn.

„Þetta er mikilvæg niðurstaða fyrir okkur og ég fagna henni innilega. Þetta þýðir að danska kerfið verndar starfsmenn fyrir social dumping þegar alþjóðleg fyrirtæki sækja inn á danskan markað án þess að virða réttindi verkamanna,“ segir Jan Villadsen, verkalýðsforingi í Danmörku í samtali við TV2 fréttastöðina. 

Talsmaður Ryanair sagði í samtali við fjölmiðla í kjölfar dómsins að málinu yrði áfrýjað til æðri dómstóls. 

„Það er fáránlegt að dönsk verkalýðsfélög krefjist þess að við semjum um heildstæða samninga við þau er varðar írska starfsmenn sem eyða aðeins 2% af vinnutíma sínum á danskri grundu og eru nú þegar með kjarasamning í öðrum löndum,“ segir talsmaðurinn. Hann bætir við að Ryanair muni áfram fljúga til og frá Danmörku en að flugvélarnar verða gerðar út frá öðrum ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert