Einn helsti leiðtogi Ríkis íslams fallinn

Tariq Bin-al-Tahar Bin al Falih al-‘Awni al-Harzi.
Tariq Bin-al-Tahar Bin al Falih al-‘Awni al-Harzi. Bandaríska dómsmálaráðuneytið

Einn helsti leiðtogi Ríkis íslams féll í loftárásum í Sýrlandi í síðasta mánuði. Þetta kemur fram á vef CNNTariq al-Harzi var þekktur sem „emír sjálfsmorðssprengjuárása“ en bandarísk yfirvöld höfðu reynt að hafa uppi á honum mánuðum saman.

Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu gegndi Al-Harzi mikilvægu hlutverki í skipulagningu fyrir hryðjuverkasamtökin, en hann hafði umsjón með því að fá jíhadista og vopn inn í Írak og Sýrland til að kynda undir stríðsvél samtakanna.

Al-Harzi, sem var frá Túnis, er talinn vera einn fyrsti erlendi vígamaðurinn til að ganga í raðir samtakanna. Hann hjálpaði til við að skipuleggja fjölda sjálfsmorðssprengjuárása í Írak auk þess sem hann hafði umsjón með rekstri hryðjuverkasamtakanna í Líbíu, Nígeríu og Egyptalandi.

„Þetta var stórt skref,“ segir Mike Rogers, fréttaritari hjá CNN. „Þetta mun hafa mjög truflandi áhrif á starfsemina þeirra, að minnsta kosti í einhvern tíma.“

Al-Harzi lét lífið í Shaddadi í Sýrlandi hinn 16. júní sl. að sögn Jeffs Davis, talsmanns bandaríska varnarmálaráðuneytisins. Hann hafði verið á lista eftirlýstra hryðjuverkamanna í Bandaríkjunum síðan á síðasta ári, og hafði utanríkisráðuneytið boðið þrjár milljónir bandaríkjadala eða tæpar 400 milljónir króna fyrir upplýsingar um hann.

Þá höfðu bandarísk yfirvöld sagt frá því í síðasta mánuði að bróðir al-Harzis, sem einnig var leiðtogi hjá hryðjuverkasamtökunum, hefði látist í loftárás í Mosul í Írak hinn 15. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert