Óttast hryðjuverk á þjóðhátíðardaginn

Stytta af George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna.
Stytta af George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna. AFP

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa aukið öryggisgæslu á landsvísu til muna og hvetur fólk til að vera á varðbergi yfir helgina því þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna er á morgun.

Alríkislögreglan FBI, Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna og fleiri öryggisstofnanir hafa varað við aukinni hættu um helgina. New York ríki hefur aukið eftirlit til muna, en búist er við að mikill fjöldi fólks leggi leið sína til New York borgar í tilefni dagsins, en borgin er sú stærsta í Bandaríkjunum.

„Við erum mjög meðvituð um að ríkið er skotmark hryðjuverkamanna,“ segir Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York ríkis. „Þegar við fögnum þjóðhátíðardeginum með fjölskyldu og vinum, þá hvet ég alla íbúa borgarinnar til að muna ekki bara eftir frelsinu sem er okkur svo kært, heldur vera líka á verðbergi gagnvart hættum og tilkynnar grunsamlegt athæfi.“

Öryggisgæsla hefur einnig verið aukin í öðrum bandarískum stórborgum, þar á meðal höfuðborginni Washington, þó svo að ekki sé talið að að þeim steðji sérstök hætta. Íbúar Boston eru minnugir árásanna á maraþonið árið 2013, þannig að öryggisgæsla í borginni verður mikil.

Bandarísk yfirvöld verða einnig á varðbergi utan landsteinanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert