Rætt að flytja 5,5 milljónir Hong Kong-búa til Norður-Írlands

Hugmyndir voru uppi um að flytja alla íbúa Hong Kong …
Hugmyndir voru uppi um að flytja alla íbúa Hong Kong til Norður-Írlands og stofna þar nýtt borgríki. AFP

Samkvæmt opinberum skjölum var það rætt innan breska stjórnkerfisins að flytja 5,5 milljón íbúa Hong Kong til Norður-Írlands, þegar átökin á Norður-Írlandi stóðu sem hæst. Um þetta má lesa í gögnum frá 1983 sem voru gerð opinber í dag.

Hugmyndin kom upphaflega frá Christie Davies, félagsfræðingi við Reading University. Hann lagði til að borgríki yrði stofnað í Magillan, milli Colaraine og Derry, á þeim forsendum að auðséð væri að íbúar Hong Kong myndu ekki eiga sér pólitíska framtíð eftir að yfirráð svæðisins færðust til Kína 1997.

Opinber starfsmaður á Norður-Írlandi, George Fergusson, greip hugmyndina á lofti og hóf umræður við utanríkisráðuneytið. Að því er fram kemur hjá Guardian varpa bréfaskipti um málið ljósi á það hvernig hátt settir starfsmenn tóku hugmyndinni sem velkominni dægradvöl á tímum blóðugra og hatrammra átaka.

Ekkert bendir til þess að hugmyndin hafi verið rædd meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar.

„Við höfum ekki gert upp við okkur hvort koma 5,5 milljón Kantonbúa muni auðvelda eða erfiða framkvæmd stefnu stjórnvalda varðandi valdaframsal,“ skrifaði Ferguson m.a. Þá sagði hann að ef íbúar Gíbraltar og Falklandseyja gætu talist til íbúa Evrópu, gætu yfirvöld í Brussel varla sett sig uppi á móti íbúum Hong Kong.

Ferguson benti á að fimmtíu kínverskar fjölskyldur frá Víetnam hefðu þegar flust búsetum til Craigavon og Coleraine, sem benti til þess að loftslagið ætti ekki illa við Kínverja og að þeim kæmi ágætlega saman við innfædda.

Forvitnilega og ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert