Þorpsbúar óánægðir með makaskiptahátíð

Hægt var að versla kynlífsleikföng á hátíðinni. Mynd úr safni.
Hægt var að versla kynlífsleikföng á hátíðinni. Mynd úr safni. AFP

Þorpsbúar í Flaxley í Gloucester á Englandi brugðust reiðir við um helgina þegar að rúmlega 500 manns komu þangað til þess að skemmta sér með kynsvalli og orgíum.

Fólkið tók þátt í hátíðinni „Swingfields 2015“ sem snýst um að miklu leyti um makaskipti. (e. swinging) Að sögn þorpsbúa var enginn varaður við hátíðinni og að það hafi verið áfall fyrir bæjarbúa þegar að mörg hundruð manns hópuðust þar saman um helgina í tjaldvögnum, húsvögnum og bílum.

The Telegraph segir frá þessu.

Um 30 manns búa í þorpinu en þar stendur m.a. klaustur frá tólftu öld og heilagur brunnur.

Swingfields hátíðin var fyrst haldin í júlí 2013 og hefur hún verið haldin árlega síðan. Á síðasta ári fór hún fram í Worcestershire en var í ár flutt til Flaxley. Fyrstu gestir hátíðarinnar komu til þorpsins á fimmtudaginn.

Hátíðargestir fengu hins vegar ekki að vita staðsetningu hátíðarinnar fyrr en tveimur dögum áður en hún hófst. Var það gert til þess að halda henni „leyndri og öruggri“.

Það þýddi þó hins vegar einnig það að íbúar þorpsins höfðu enga hugmynd um hvað var í vændum.

Sumir kölluðu hljóðin frá fólkinu sem „óbærileg“ og sögðu að það hefði átt að vara þau við fyrirfram. „Það var áfall þegar við fórum niður að tjaldsvæðinu á fimmtudaginn til þess að biðja þau um að lækka tónlistina,“ lýsti einn þorpsbúi sem vildi ekki koma undir nafni. „Við skulum bara segja að við sáum skilti þar sem á stóð „Þrír er töfratalan“ og ýmsar áhugaverðar myndir sem gáfu til kynna að þetta var engin venjuleg tónlistarhátíð.“

„Þetta snýst ekki um eðli hátíðarinnar, fólk getur gert það sem það vill í einrúmi,“ sagði annar þorpsbúi. „Það voru lætin sem voru óþolandi. Þetta voru 48 tímar af helvíti. Ég hef sofið í aðeins fjóra tíma síðan á fimmtudaginn,“ bætti hann við en viðtal við hann var tekið í gær. 

Þriðji þorpsbúinn kallaði hátíðina „alveg hræðilega“ og gerði ráð fyrir að um þúsund manns hefðu tekið þátt í henni.

Á heimasíðu hátíðarinnar kemur fram að gestir geta notið kyrrðarinnar í sveitinni. Fólki er lofað lifandi tónlist í þrjá daga, sem og aðgangi að heitum pottum, gufubaði, vaðlaug og básum sem selja kynlífsleikföng.

Þar kemur jafnframt fram að einhleypir menn gætu fengið aðgang að hátíðinni en í takmörkuðu magni til þess að tryggja „fullkomið jafnvægi milli allra gesta“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert