„Ekki berja mig svona, ég mun deyja“

Samiul Alam Rajon var barinn til bana. Hann var fyrst …
Samiul Alam Rajon var barinn til bana. Hann var fyrst bundinn við staur og krafinn um að játa á sig þjófnað. Skjáskot úr myndbandinu

Lögreglan í Bangladess leitar nú hóps árásarmanna sem bundu þrettán ára gamlan pilt við staur og börðu hann svo til bana. Árásina tóku þeir upp á myndband á síma.

Myndbandið er 28 mínútna langt. Á því má sjá piltinn grátbiðja mennina um vatn þar sem hann er að dauða kominn. Árásin átti sér stað í borginni Sylhet í norðausturhluta landsins. Hún hefur vakið upp viðbjóð og hörð viðbrögð almennings í Bangladess en myndbandið var birt og dreift víða á samfélagsmiðlum um helgina.

Drengurinn hét Samiul Alam Rajon. Lögreglan segir að krufning á líki hans hafi leitt í ljós fjölda áverka, m.a. á höfði hans og brjóstkassa. Hann lést vegna innvortis blæðinga. „Á líki hans voru 64 áverkar vegna miskunnarlausra barsmíða,“ segir lögreglustjórinn Alamgir Hossain. 

Innanríkisráðherra landsins segir að lögreglan hafi handtekið tvo menn vegna málsins og leiti fjögurra til viðbótar. 

„Þeir verða handteknir og munu fá harða refsingu,“ sagði innanríkisráðherrann. 

Sá sem talinn er vera höfuðpaurinn, Muhit Alam, hefur verið dæmdur í fimm daga gæsluvarðhald. Hann verður ákærður fyrir morð.

Samuil vann fyrir sér með því að selja grænmeti eftir að hann hætti í skóla. Þannig vildi hann aðstoða fjölskyldu sína sem er mjög fátæk. Lögreglan segir að árásarmennirnir hafi bundið hann við staur eftir að hafa sakað hann um þjófnað. Fjölskylda hans segir að Samuil hafi ekki stolið neinu.

„Sonur minn er enginn þjófur. Allir vita það. Ég vil réttlæti,“ segir móðir drengsins, Lubna Aktar.

Á myndskeiðinu má sjá piltinn, örvinglaðan af hræðslu, öskra af sársauka og segja ítrekað: „Ekki berja mig svona, ég mun deyja.“

Á myndbandinu má svo einnig heyra árásarmennina reyna að þvinga Samiul til að játa á sig þjófnaðinn. Á einum tímapunkti var hann hvattur til að halda sína leið en hann gat ekki staðið upp. „Beinin í honum eru í lagi, berjið hann meira,“ heyrist þá einn árásarmannanna segja.

Er Samuil grátbað um vatn var hlegið að honum. Á myndbandinu má einnig heyra árásarmennina ráðgera að birta myndbandið á Facebook, „svo allir sjái refsingu þjófsins.“

Alam var handtekinn er hann reyndi að losa sig við lík piltsins á afviknu svæði í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert