Fyrsta árás Ríki íslam á Tyrkland?

Mikil ringulreið ríkir nú í bænum Suruc í Tyrklandi, en að minnsta kosti 31 lét lífið í sjálfsmorðsárás sem framin var í bænum í dag. Flestir hinna látnu voru háskólanemar sem höfðu í hyggju að ferðast til Sýrlands og aðstoða við uppbyggingu bæjarins Kobane.

Talið er að árásarmaðurinn hafi verið á vegum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam, en Kobane var á valdi samtakanna mánuðum saman, áður en sveitir Kúrda tóku hann aftur í janúar sl.

Um 100 slösuðust í sjálfsmorðsárásinni.

„Fyrir mína hönd og þjóðar minnar, bölva ég og fordæmi þá sem frömdu þetta grimmdarverk,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í dag. „Hryðjuverk ber að fordæma, hvaðan sem þau eiga rætur sínar að rekja.“

Myndskeið og myndir af vettvangi sýndu fólk liggja í blóði sínu á götunni og þá höfðu nokkrir verið huldir klæðum.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://embed.theguardian.com/embed/video/world/video/2015/jul/20/aftermath-blast-turkey-syria-video" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Forsætisráðherrann Ahmet Davutoglu sagði allt benda til þess að Ríki íslam hefði staðið að baki árásinni, en sagði lokaniðurstöðu ekki liggja fyrir. Ef sannfæring ráðherrans reynist á rökum reist, er um að ræða fyrstu árás samtakanna gegn Tyrklandi.

Fregnir herma að ungmennin sem létust hafi verið í hópi 300 aðgerðasinna sem safnast höfðu saman í Suruc hvaðanæva af landinu. Hópurinn hugðist ferðast til Kobane, byggja garða og endurreisa skóla, og afhenda börnum leikföng.

Á samfélagsmiðlum hefur myndum verið dreift af hópnum að snæða morgunverð nokkrum tímum áður en árásin átti sér stað.

Davutoglu sagði Ríki íslam ekki aðeins ógna Sýrlandi, heldur jafnframt Tyrklandi. Árásin hefur verið fordæmd bæði í Bandaríkjunum og Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert