Fær ekki að nota drengjasalernið

Það voru ekki samnemendur Grimm sem voru ósáttir við að …
Það voru ekki samnemendur Grimm sem voru ósáttir við að hann notaði strákaklósettið. AFP

Dómstóll í Virginiu í Bandaríkjunum tók í dag fyrir mál Gavin Grimm, 16 ára transdrengs, sem hefur lögsótt skólanefnd Gloucester-sýslu. Skóli Grimm hefur meinað honum um að nota þá salernisaðstöðu skólans sem ætluð er karlkyns nemendum.

Um er að ræða tímamótamál en samskonar mál er til umfjöllunar í Michigan og þá hafa repúblikanar í Flórída, Kentucky, Minnesota og Texas gert tilraunir til að koma í gegn „baðherbergisfrumvörpum“ sem miða að því að skikka transnemendur til að nota salerni sem ætluð eru því kyni sem líkami þeirra endurspeglaði við fæðingu.

Lögmenn Grimm lýsa honum sem dæmigerðum táning. Hann sé vel gefinn og vel máli farinn, víðlesinn, elski hunda sína og ketti og að hanga með vinum sínum. Hann hefur verið greindur með kynáttunarvanda og gengist undir lyfja- og sálfræðimeðferð.

Starfsfólk Gloucester High School sýndi Grimm og ferlinu sem hann var að ganga í gegnum upphaflega skilning. Nafninu hans var breytt í tölvukerfi skólans og í sjö vikur gat hann notað salerni ætluð karlkyns nemendum skólans. Aðrir nemendur virtust sáttir við tilhögunina og engin kvörtun var lögð fram.

Þær hófust hins vegar að berast seinna frá fullorðnum, bæði foreldrum og öðrum íbúum í nágrenninu. Skólinn boðaði til fundar og þar braust reiðin út. Rætt var um Grimm sem „stúlku“ og „unga dömu“ og ósk hans um að vísað væri til hans með karlkyns fornöfnum hunsuð. Hann var kalaður „frík“ og einn viðstaddra sagði að hann væri eins og hundur sem vildi pissa utan í brunahana.

Þó nokkrir vöruðu við því að með því að veita honum aðgengi að strákaklósettinu yrði opnað á kynferðisofbeldi og brot gegn friðhelgi einkalífsins.

Grimm ávarpaði fundinn og sagðist bara vilja vera venjulegt barn og nota salernið í friði. Hann hefði ekki beðið um að fæðast svona og að það sem hann hefði átt við að stríða væri eitt það erfiðasta sem hægt væri að ganga í gegnum.

„Þetta gæti verið barnið ykkar. Ég er bara mannlegur. Ég er bara strákur,“ sagði hann.

Skólinn ákvað að snúa ákvörðun sinni og setja það í reglur að „líffræðilegt kyn“ úrskurðaði um notkum salerna. Vörn skólastjórnenda byggir aðallega á því að líffræðilega sé Grimm enn stúlka og að hann hafi ekki lagt fram sönnunargögn sem sýna að hann sé strákur.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert