Nafngreina þann sem drap Cecil

Dýraverndunarsamtök segja að bandarískur ferðamaður beri ábyrgð á drápinu á ljóninu Cecil í Simbabve. Cecil var skotinn með ör, særðist og var svo hundeltur í 40 klukkustundir þar til hann var drepinn með riffilskoti.

Dýraverndunarsamtökin Zimbabwe Conservation Task Force segja að sá sem beri ábyrgð á drápinu heiti Walter Palmer og sé frá Minnesota. Hann er tannlæknir.

Hann borgaði 50 þúsund dollara, tæpar sjö milljónir króna, fyrir að fá að lokka ljónið út úr garðinum með æti og síðan skjóta það og drepa. Veiðiþjófurinn lét sér það ekki nægja heldur afhöfðaði dýrið og fláði.

Samtökin segja að Palmer hafi farið ásamt atvinnuveiði- og leiðsögumanninum Theo Bronkorst, til veiðanna að næturlagi. Þeir hafi bundið dautt dýr við bílinn til að lokka Cecil út úr þjóðgarðinum. Innan garðsins eru veiðar stranglega bannaðar. 

„Palmer skaut Cecil með boga og ör en það skot drap hann ekki. Þeir eltu hann svo og fundu hann 40 klukkustundum síðar og skutu hann með byssu,“ segja samtökin. 

Cecil var með ól með GPS-búnaði um hálsinn vegna rannsóknar Oxford-háskóla á hegðun ljóna. Þegar veiðiþjófarnir sáu það reyndu þeir að eyða þeim sönnunargögnum. En það gekk ekki.

„Þeir fláðu Cecil og afhöfðuðu. Við vitum ekki hvar höfuð hans er. Walter Palmer borgaði 50 þúsund dollara fyrir drápið og við gerum ráð fyrir að Theo Bronkhorst hafi tekið við þessum peningum.“

Bronkhorst ásamt landeiganda á svæðinu mun mæta fyrir dóm á morgun. Hann verður ákærður fyrir veiðiþjófnað.

„Hvorki atvinnuveiðimaðurinn eða landeigandinn höfðu leyfi til veiðanna sem geta réttlætt aftöku ljónsins og eru því ábyrgir fyrir ólöglegum veiðum,“ segir í yfirlýsingu frá þjóðgarðsyfirvöldum í Simbabve. Í þeirri yfirlýsingu er ekki minnst á Palmer. 

Sorgmæddir yfir dauða Cecils

Cecil var þrettán ára gamall. Hans séreinkenni var mikill og dökkur makki. Vísindamenn við Oxford-háskóla hafa fylgst náið með ferðum hans undanfarin ár og bar hann ól með GPS staðsetningartæki um háls sinn. Mikil sorg ríkir meðal rannsakendanna sem hafa fylgst með Cecil og hegðun hans innan garðsins.

Í frétt CNN um málið segir að sex ljónynjur hafi verið í hjörð Cecils. Með þeim hafi hann átt að minnsta kosti 24 afkvæmi. Nú er hætta á að ungarnir verði drepnir þar sem höfuð hjarðarinnar er dautt. Þá munu önnur og yngri ljón reyna að komast til valda og afkvæmi Cecils, fyrrverandi æðstaljóns, standa í vegi fyrir því.

Veiðimennirnir eru sagðir hafa lokkað Cecil út úr þjóðgarðinum. Innan garðsins eru veiðar stranglega bannaðar. Þar var hann skotinn með ör en særðist aðeins, drapst ekki. Veiðiþjófarnir eltu hann svo í um 40 klukkustundir og skutu hann þá banaskotinu með riffli.

„Það er ekki langt síðan að ég fylgdist með Cecil fara út fyrir þjóðgarðsmörkin til veiða,“ segir David Maconald, prófessorinn sem fer fyrir rannsókninni í Oxford-háskóla. „En í það skiptið snéri hann aftur inn í öryggi garðsins. En nú gerði hann örlagarík mistök og ég er mjög sorgmæddur.“

Fréttir mbl.is:

Afkvæmi Cecils verða drepin

Cecil fannst afhöfðaður og fleginn

Cecil árið 2012. Hann var með sex ljónynjur í hjörð …
Cecil árið 2012. Hann var með sex ljónynjur í hjörð sinni og átti að minnsta kosti 26 hvolpa. Cecil var þekktur fyrir dökkan og mikinn makka sinn. AFP
Cecil var með mjög sérstakan dökkan makka.
Cecil var með mjög sérstakan dökkan makka. Af Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert