Átta herþotur stefna á Egyptaland

Þota af gerðinni F-16.
Þota af gerðinni F-16. AFP

Átta nýjar F-16 orrustuþotur eru lagðar af stað frá framleiðanda í Bandaríkjunum til Egyptalands, en hermálayfirvöld þar í landi lögðu fyrr á þessu ári inn pöntun fyrir vélunum. Verða þoturnar afhentar á morgun.

Orrustuþoturnar bandarísku eru ekki þær einu sem hermálayfirvöld í Egyptalandi hafa pantað að undanförnu því fyrir rétt rúmlega viku síðan komu þangað þrjár nýjar Rafale-orrustuþotur frá Frakklandi. Fleiri Rafale-vélar munu bætast við á næstunni því lögð hefur verið inn pöntun fyrir alls 24 þotum.

Í síðasta mánuði fengu Egyptar einnig afhenda tvo nýja eldflaugabáta frá Bandaríkjunum og eru þeir sagðir einkar hraðskreiðir. Þá voru einnig 10 herþyrlur af gerðinni Apache AH-64 afhentar í desember á síðasta ári auk þess sem Egyptar hafa lagt inn pöntun fyrir nýrri freigátu. Ekki er vitað hvenær skipið fæst afhent.  

Fréttaveita AFP hefur eftir sendiráði Bandaríkjanna í Kaíró að orrustuþotunum átta, sem eru af gerðinni F-16 Block 52, sé flogið þangað beint frá Bandaríkjunum. Munu þær strax fara í þjónustu hersins við komuna til Egyptalands, en vélarnar lenda þar á morgun.

Til stendur að afhenda Egyptum fjórar vélar til viðbótar af sömu gerð síðar á þessu ári.

Eru hin nýju hergögn sögð vera mikilvægur liður í eflingu egypska hersins, en skammt austan landamæranna eru liðsmenn vígasamtaka Ríkis íslams með mjög sterka stöðu. Hafa egypskar hersveitir meðal annars gert loftárásir á samtökin innan landamæra Líbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert