Styrkleiki veira eins og í skolpi

Unnið er að byggingu ólympíuþorpsins í Rio, en mörg þeirra …
Unnið er að byggingu ólympíuþorpsins í Rio, en mörg þeirra loforða sem gefin voru þegar borgin falaðist eftir réttinum til að halda leikana verða ekki uppfyllt. AFP

Þeir íþróttamenn sem keppa í vatnaíþróttum munu keppa í ómeðhöndluðu skolpi á sumarólympíuleikunum í Rio á næsta ári, ef marka má niðurstöður rannsókna Associated Press. Sérfræðingar segja mikla hættu á að íþróttamennirnir veikist, en engar líkur séu á því að yfirvöldum takist að koma ástandinu í lag í tæka tíð.

Rannsóknir sem framkvæmdar voru fyrir AP leiddu í ljós hættulegt magn veira og baktería á stöðum þar sem keppni mun fara fram, en sum próf leiddu í ljós mengun sem er 1,7 milljón sinnum meiri en talin er hættuleg við strendur Suður-Kaliforníu.

Mengun frá skolpi er vandamál víða í Brasilíu, þar sem skolpið er sjaldnast meðhöndlað. Þegar Rio freistaði þess að fá að halda ólympíuleikana voru fögur fyrirheit gefin um úrbætur, m.a. byggingu átta hreinsunarstöðva, en aðeins ein slík hefur verið reist.

Rannsókn AP náði til þeirra þriggja staða þar sem keppt verður í vatnaíþróttum, auk Ipanema-strandar, en leitað var að þremur tegundum adenoveira, sem valda sýkingum í öndunarfærum og meltingarvegi, auk rótaveira, enteroveira og saurbaktería.

Niðurstöður voru þær að ekki einn þessara staða væri öruggur fyrir sund né siglingar. Styrkur veira í öllum prófunum var um það bil sá sami og í ómeðhöndluðu skolpi, jafnvel á Copacabana-strönd, þar sem margir 350.000 gesta leikanna munu vilja svala sér.

Þegar leitað var eftir viðbrögðum frá framkvæmdastjóra heilbrigðismála hjá Alþjóðaólympíunefndinni, sagði hann að nefndin og brasilísk yfirvöld ættu að halda sig við þau vinnubrögð að prófa aðeins fyrir bakteríum en ekki veirum. Hann sagði að Alþjóðaheilbrigðisstofunin og aðrir hefðu staðfest að engin hætta steðjaði að íþróttafólkinu.

Margir sérfræðingar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa barist fyrir því að prófað sé fyrir veirum þegar gæði vatns eru til athugunar, þar sem meirihluti veikinda sem tengja má við iðkun vatnaíþrótta megi rekja til veira, ekki baktería.

Afar ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert