Tsipras ver Varoufakis

Yanis Varoufakis
Yanis Varoufakis AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, varði í dag ákvörðun fyrrverandi fjármálaráðherra landsins, Yanis Varoufakis, sem lét gera áætlun um útgöngu Grikkja af evrusvæðinu, Grexit. Höfða á einkamál gegn Varoufakis vegna þess.

„Að sjálfsögðu gaf ég persónulega fyrirskipun um að setja saman teymi sem myndi annast gerð áætlunar ef nauðvarnar kæmi,“ segir Tsipras. Hann tjáði þingheimi í dag að ef lánadrottnar Grikkja voru að undirbúa brotthvarf Grikklands út úr evrusamstarfinu (Grexit) - þá hefði verið eðlilegt að Grikkir undirbyggju vörn sína.

Höfðað hefur verið einkamál gegn Varoufakis þar sem því er haldið fram að hann hafi á laun verið að undirbúa brotthvarf Grikkja. Hæstiréttur hefur sent málið til gríska þingsins sem hefur eitt heimild til þess að ákvarða um hvort höfða megi mál gegn fyrrverandi ráðherra með formlegum hætti.

Tsipras segir að Varoufakis hafi kannski gert mistök en ekki ætti að höfða mál gegn honum.

„Þú getur ekki sakað hann um að hafa stolið peningum frá grísku þjóðinni eða að hafa á laun undirbúið brotlendingu landsins,“ sagði Tsipras á þingi í dag.

Ráðherrann fyrrverandi hef­ur viður­kennt að lögð hafi verið drög að hliðstæðu greiðslu­kerfi ef til þess kæmi að rík­inu yrði sparkað úr evru­sam­starf­inu. Hann sagði að það hefði verið kæru­leysi af sinni hálfu ef hann hefði ekki und­ir­búið „plan B“.

Sam­kvæmt Varoufa­k­isi var greiðslu­kerf­inu ætlað að brúa bil þar til hægt yrði að taka drök­muna aft­ur í notk­un. Hann neitaði því hins veg­ar að hóp­ur­inn sem vann að þess­ari áætl­un hefði starfað utan stjórn­ar­inn­ar og á skjön við lög.

„Starfs­hóp­ur fjár­málaráðuneyt­is­ins starfaði ein­göngu inn­an ramma stjórn­valds­stefn­unn­ar og ráðlegg­ing­ar hans miðuðu ávallt að því að þjóna al­manna­hags­mun­um, að virða lög lands­ins og að halda land­inu inn­an evru­svæðis­ins,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá Varoufa­k­is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert