Japanir tvístígandi gagnvart kjarnorku

Fjöldi fólks lagði leið sína í friðar- og minningagarðinn í …
Fjöldi fólks lagði leið sína í friðar- og minningagarðinn í Hiroshima í dag til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að Bandaríkjamenn vörpuðu atómsprengju á borgina. AFP

Tugþúsundir söfnuðust saman í Hiroshima í dag til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að Bandaríkjamenn vörpuðu atómsprengju á borgin í fyrstu kjarnorkuárás sögunnar. Skoðanir eru enn skiptar um það hvort árásirnar á Hiroshima og Nagasaki hafi verið réttlætanlegar.

Bjölluhljómur ómaði þegar viðstaddir viðhöfðu þögn klukkan 8.15 að staðartíma, en það var á þeirri stundu fyrir sjö áratugum sem borgin hvarf í eldhafi og gríðarstóru skýi sem teygði sig til himins.

Þúsundir létust samstundis en fjöldi dó úr sárum sínum og geislaveiki dagana og vikurnar eftir árásina.

Meðal viðstaddra í dag voru börn, aldnir eftirlifendur og fulltrúar 100 ríkja, sem lögðu blóm að minnisvarða í friðar- og minningargarði borgarinnar. Þá var dúfum sleppt við athöfnina.

<blockquote class="twitter-tweet">

Address by Prime Minister Abe at the Hiroshima Peace Memorial Ceremony which was held today: <a href="http://t.co/1APFLiCdiM">http://t.co/1APFLiCdiM</a>

— PM's Office of Japan (@JPN_PMO) <a href="https://twitter.com/JPN_PMO/status/629128461743882240">August 6, 2015</a></blockquote><script async="" charset="utf-8" src="//platform.twitter.com/widgets.js"></script><div id="embedded-remove"> </div>

„Þar sem við erum eina landið sem hefur orðið fyrir árás með atómsprengju, er það verkefni okkar að skapa heim án kjarnorkuvopna,“ sagði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan. „Okkur hefur verið falið að koma á framfæri miskunnarleysi kjarnorkuvopna, til komandi kynslóða og þvert á landamæri.“

Abe sagði að Japanir hygðust leggja fram ályktun um bann gegn kjarnavopnum á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðar á þessu ári. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem er staddur í opinberri heimsókn í Malasíu, lýsti árásinni á Hiroshima sem afar áhrifamikilli áminningu um afleiðingar stríðsreksturs.

Algjör illska

Á næstunni stendur til að endurræsa kjarnakljúf í suðurhluta Japan, þann fyrsta frá því að flóðbylgja skapaði hættuástand í og við Fukushima-kjarnorkuverið. Um var að ræða eitt versta kjarnorkuslys sögunnar eftir Chernobyl-slysið árið 1986 og þorri almennings er því mótfallinn að kljúfarnir verði gangsettir.

Abe hefur einnig verið gagnrýndur fyrir aðgerðir til að efla vald og umsvif herafla landsins, sem hingað til hefur eingöngu haft það hlutverk að sinna vörnum landsins. Varnarmálaráðherrann Gen Nakatani hefur viðurkennt að þær breytingar sem þingið hefur til umræðu gætu opnað á þann fræðilega möguleika að Japanir færðu kjarnorkuvopn í hendur bandamanna sinna, en segir það ólíklegt.

Eftirlifendur kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki, þekktir sem hibakusha, hafa farið fram á að Abe falli frá áformum sínum. „Þú mátt aldrei gera Japan að landi sem endurtekur mistök fortíðar,“ sagði Yukio Yoshioka, 86 ára, við forsætisráðherrann í dag.

Í árlegri ræðu sinni kallaði borgarstjóri Hiroshima, Kazumi Matsui, kjarnorkuvopn „hreina illsku“.

Talið er að um 140.000 manns hafi látið lífið af völdum sprengjunnar, samstundis og dagana og vikurnar á eftir.

Paul Tibbets, flugmaðurinn sem varpaði sprengjunni á Hiroshima, lést árið 2007 en sagði skömmu áður að hann væri þess fullviss að Bandaríkjamenn hefðu gert hið rétt með því að nota atómsprengjuna gegn Japönum. Ákvörðunin hefur verið umdeild, en því hefur verið haldið fram að hún hafi bjargað lífum með því að forða stríðandi fylkingum frá frekari stríðsrekstri og jafnvel innrás.

Dúfur fljúga yfir minningagarðinum en í bakgrunninum sést glitta í …
Dúfur fljúga yfir minningagarðinum en í bakgrunninum sést glitta í hvelfinguna á Genbaku, A-Sprengju Hvelfingunni, en hún var eina byggingin sem stóð eftir á því svæði þar sem sprengjan kom niður. AFP
Maður biður fyrir fórnarlömbum árásarinnar við minnisvarða í minningagarðinum.
Maður biður fyrir fórnarlömbum árásarinnar við minnisvarða í minningagarðinum. AFP
Caroline Kennedy, sendiherra Bandaríkjanna í Japan, var fulltrúi landsins við …
Caroline Kennedy, sendiherra Bandaríkjanna í Japan, var fulltrúi landsins við athöfnina í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert