Þjóðaratkvæði í Danmörku í desember

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, tilkynnti í dag að þjóðaratkvæði færi fram í landinu 3. desember um það hvort Danir eigi að gefa eftir undanþágu sína frá því að taka þátt í samstarfi Evrópusambandsríkja á sviði dóms- og innanríkismála og innleiða þessi í stað 22 lagagerðir frá Evrópusambandinu á því sviði eða halda undanþágunni. Fréttavefurinn Thelocal.dk greinir frá þessu í dag.

Danir hafa haft fjórar undanþágur frá löggjöf Evrópusambandsins frá því að þeir samþykktu Maastricht-sáttmála sambandsins fyrir rúmum tveimur áratugum síðan í þjóðaratkvæði. Áður hafði sáttmálanum verið hafnað af dönsku kjósendum. Undanþágurnar voru hugsaðar til þess að tryggja að Danir samþykktu sáttmálann í nýrri atkvæðagreiðslu.

Þjóðaratkvæði hefur ekki farið fram í Danmörku í tengslum við veru landsins í Evrópusambandinu frá því árið 2000 þegar meirihluti danskra kjósenda hafnaði því að taka upp evruna í stað dönsku krónunnar. Ein undanþága Dana er einmitt frá þátttöku í Efnahags- og myndbandalagi Evrópusambandsins. Það er evrunni. Aðrar snúa að þátttöku í samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála og sameiginlegum evrópskum ríkisborgararétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert