Hinsta skáldsaga Pratchett komin út

Terry Prachett þegar hann var aðlaður árið 2009.
Terry Prachett þegar hann var aðlaður árið 2009. AFP

Hinsta skáldsaga rithöfundarins Terrys Pratchett kom út í Bretlandi á miðnætti, tæpu hálfu ári eftir andlát hans. Bókin nefnist The Shepherd‘s Crown sem gæti útlagst sem Kóróna hirðsins á íslensku og er sú fertugasta og fyrsta í Discworld sagnabálknum.

Sala á bókinni hófst á miðnætti í Bretlandi og höfðu fjölmargir aðdáendur safnast saman í verslunum í London, Oxford og í Newcastle. Margar verslanir voru opnaðar fyrr en venjulega í morgun. Bókin kemur út 1. september í Bandaríkjunum.  

Starfsfólk verslana býr sig undir að útgáfa bókarinnar gæti kallað fram heldur tregafyllri viðbrögð hjá viðskiptavinum en ella því nú sé komið að kveðjustund. Verslun í Perth í Ástralíu mun til að mynda gefa viðskiptavinum sínum pakka af pappírsþurrkum til að þerra tárin.

Pratchett lést í mars á þessu ári en hann hafði lengi glímt við Alzheimers-sjúkdóminn. Eftir hann liggja yfir sjötíu bækur en hann lauk við síðustu bókina síðasta sumar áður en sjúkdómurinn náði hinsta stigi sínu.

Rob Wilkins, vinur höfundarins, sagði í samtali við BBC að erfitt hafi reynst að ljúka við bókina þar sem heilsa Pratchetts hafi farið verulega dvínandi síðustu mánuðina og hafi hann ekki náð að fínpússa söguna eins og hann hefði viljað. Hann hafi þó enn notið þess að skrifa og eftir hann liggi margar sögur sem hann hafði byrjað á en ekki lokið við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert