Hert gæsla í kjölfar árásar

Mennirnir sem yfirbuguðu byssumanninn hlutu orðu heiðurs­fylk­ing­ar­inn­ar, æðstu orðu Frakk­lands.
Mennirnir sem yfirbuguðu byssumanninn hlutu orðu heiðurs­fylk­ing­ar­inn­ar, æðstu orðu Frakk­lands. AFP

Evrópskir ráðherrar og embættismenn koma saman til fundar í París í dag þar sem rætt verður um strangari öryggisgæslu í lestum. Kallað hefur verið eftir hertri gæslu í kjölfarið á árás byssumanns í lest í Frakklandi í síðustu viku.

BBC greinir frá þessu.

Farþegar í lestinni yfirbuguðu Ayoub El Khazz­ani, 25 ára Marokkómann, en hann var vopnaður byssu. El Khazzani særði þrjá farþega áður en hann var stöðvaður. Enginn lést í árásinni.

Margir spyrja sig hvernig einhver gat komist um borð í lest vopnaður Kalashni­kov-riffli, hníf, sjálf­virkri skamm­byssu og skot­hylkj­um.

Til fundarins í dag koma ráðherrar frá Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Belgíu, Lúxemborg, Hollandi og Sviss. Samkvæmt heimildum BBC verður rætt um hvort setja eigi upp svipuð öryggishlið í alþjóðlegum lestum og er á flugvöllum. Hvort öryggisverðir á járnbrautarstöðvum verði vopnaðir. Einnig eigi að bæta upplýsingaflæði á milli alþjóðlegra lestarsvæða.

„Við verðum að sjá hvort við getum haft kerfi svipað því sem er á flugvöllum á öðrum stöðum,“ sagði Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands.

Tillögur ráðherranna verða síðan teknar til umfjöllunar hjá sérstökum vinnuhópi um öryggismál í evrópskum lestarsamgöngum þann 11. september og aftur á fundi samgönguráðherra Evrópusambandsins í byrjun október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert