Notuðu táragas á mótmælendur

Lögregla í Tyrklandi notaði táragas, gúmmíkúlur og vatnsbyssur til þess að tvístra hópi mótmælanda í miðborg Istanbúl í dag. Að minnsta kosti 14 voru handteknir.

Um 500 manns tóku þátt í mótmælunum sem hófust friðsamlega við Istiklal götu í evrópska hluta miðborgarinnar. Lögregla hóf að skipta sér að þegar að mótmælendur reyndu að búa til mannlega keðju og hrópuðu ókvæðisorð gegn ríkisstjórninni og árásum þeirra á Kúrda.

Meðal þeirra handteknu er tyrkneski ljósmyndarinn Yasin Akgul, sem starfar sem fréttaritari AFP. Lögreglumaður felldi hann og var honum haldið í jörðinni eftir að hann reyndi að ná myndum af aðgerðum lögreglu. Akgul var fluttur í lögreglubíl en honum var síðan sleppt eftir að sannað var að hann væri ljósmyndari fyrir fjölmiðil. Akgul var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en var síðan leyft að fara heim.

Að sögn tyrkneskra fjölmiðla særðist tökumaður frá ríkissjónvarpi Tyrkja, Anatolia,einnig í átökunum. Að sögn Anatolia voru alls 14 manns handteknir.

Mikil spenna ríkir í Tyrklandi þessa dagana vegna loftárása stjórnvalda á Kúrda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert