Birtu netföng og nöfn HIV smitaðra

AFP

Nöfn mörg hundruð manna í Bretlandi sem hafa fengið læknisþjónustu vegna HIV, eða gruns um HIV smit, voru birt fyrir mistök. Heilsugæsla í London, sem sérhæfir sig í þjónustu vegna HIV, sendi netföng fólksins út fyrir mistök. 

„Við viðurkennum að við klúðruðum þessu og við þurfum að laga þetta,“ segir Alan McOwan, yfirmaður hjá stofnuninni sem rekur sjúkrahúsin og heilsugæslurnar í Chelsea, Westminster og í nágrenni.

Hann segir mikilvægt að muna að ekki allir sem voru á listanum séu smitaðir af HIV.

Verið er að rannsaka hvers vegna heilsugæslan sem um ræðir sendi út fréttabréf í hópsendingu til skjólstæðinga stöðvarinnar, frekar en hvers og eins. Talsmaður heilsugæslunnar, sem er í Soho-hverfi í London, segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. 

„Við höfum haft samband við alla sem voru á listanum og útskýrt málið og beðist afsökunar.“

Fréttabréfið var sent út til 780 sjúklinga sem höfðu notað sérstaka netþjónustu til að bóka tíma hjá lækni og aðra þjónustu stöðvarinnar. 

Frétt Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert