Fékk tarantúlu í pósti

Tarantúlan er af gerðinni Brazilian Salmon Pink Birdeater
Tarantúlan er af gerðinni Brazilian Salmon Pink Birdeater Af Wikipedia

Maður í Bristol í Bretlandi fékk nokkuð undarlega sendingu á dögunum þegar að tarantúla leyndist í kassa sem hann fékk sendan heim til sín. Sendingin var til fyrri eiganda hússins en maðurinn ákvað hinsvegar að opna kassann. Þá blasti tarantúlan við.

Samkvæmt dagsetningum á kassanum var skepnan búin að vera á ferðinni í þrjár vikur áður en kassinn var loks opnaður. Hann var þá farinn að mygla.

Maðurinn fór með tarantúluna á dýraspítala í Bristol og þar var það staðfest að um tarantúlu væri að ræða og að hún væri „mjög veik“.

Að sögn Sonya Miles, dýralæknis, bar köngulóin einkenni ofþornunar og hafði misst mikið hár á maga sínum.

„Mygla getur haft neikvæð áhrif á tarantúlur þannig að bæði það og streitan sem fylgir því að fara fram og til baka í póstkerfinu svona lengi fær mig til að vera mjög hissa að hún lifði þetta af,“ sagði Miles.

Samkvæmt frétt Sky News er það ekki óalgengt í Bretlandi að fólk sendi skordýr og önnur lítil dýr með pósti. Þá gilda hinsvegar strangar reglur.

Miles segir það óheppni að tarantúlan hafi ekki komist til eigenda sinna fyrr.Tarantúlan, sem heitir Sid, hefur verið flutt til aðhlynningar í Somerset á sérstakri björgunarmiðstöð fyrir skriðdýr. Síðan mun Sid fá nýtt heimili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert