Varnarmálaráðherrann ritþjófur?

Varnarmálaráðherrann og Angela Merkel kanslari.
Varnarmálaráðherrann og Angela Merkel kanslari. AFP

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, hefur neitað ásökunum sem birtust í Der Spiegel í dag, um að hún hefði gerst sek um ritstuld við skrif doktorsritgerðar sinnar.

Aðrir hátt settir embættismenn hafa neyðst til að segja af sér í kjölfar ásakana af sama toga.

Samkvæmt frétt Der Spiegel mætir fjöldi kafla í ritgerð von der Leyen ekki akademískum stöðlum, en 40% ritgerðarinnar eru sögð innihalda stolinn texta.

Von der Leyen hefur hins vegar ekki aðeins neitað ásökununum, heldur hefur hún farið þess á leit við læknaháskólann í Hanover, þar sem hún skrifaði ritgerðina, að hún verði metin af „hæfri og sjálfstæðri nefnd“.

Talsmaður varnarmálaráðuneytisins sagði að ráðuneytinu hefði verið kunnugt um ásakanirnar frá því í ágúst sl.

Í frétt Der Spiegel er vísað til niðurstaða á vefsíðunni VroniPlag Wiki, þar sem tilfelli ritstuldar eru skráð og greind. Samkvæmt vefsíðunni fundust merki ritstuldar á 27 blaðsíðum af 62 í ritgerð von der Leyen, sem samsvarar 43,5%.

Að sögn Gerhard Danneman, lagaprófessors við Humboldt University í Berlín, sem einnig á aðkomu að VroniPlag Wiki, uppfylla 37 kaflar í ritgerðinni ekki akademískar kröfur, þar sem hún notar t.d. texta annarra án þess að geta heimilda.

Hann sagði tíðni „villnanna“, og sú staðreynd að auðveldlega hefði mátt komast hjá þeim, benda til þess að um gróflega klúðurslegt verk væri að ræða.

Þrír háttsettir þýskir embættismenn hafa sagt af sér frá 2011 eftir að hafa verið flæktir í ritstuldarhneyksli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert