Rannsaka 50 ára gamalt morðmál

Elsie Frost var aðeins fjórtán ára gömul er hún var …
Elsie Frost var aðeins fjórtán ára gömul er hún var myrt.

Óupplýst morð á fjórtán ára gamalli stúlku fyrir um fimmtíu árum í Wakefield á Englandi, verður nú tekið til rannsóknar að nýju. Lögreglan segist hafa fengið nýjar vísbendingar sem hún mun nú fylgja eftir.

Elsie Frost var stungin til bana árið 1965. Hún var þá á göngu í gegnum lestargöng. Í frétt Guardian segir að nú sé lögreglan að leita upplýsinga um „slátrara eða starfsmann sláturhúss“ sem sást hjóla í námunda við þann stað þar sem lík hennar, klætt gulri peysu, rauðum stakk og mynstruðu pilsi, fannst. 

Lögreglan er einnig að rannsaka hvort Elsie hafi verið á leið til fundar við einhvern á laun þar sem vinur hennar sagði að hún hefði klætt sig upp. Enginn var sakfelldur fyrir morðið á sínum tíma. 

Yngri bróðir hennar, Colin Frost, segir að morðið hafi tekið gríðarlega mikið á fjölskylduna. Hún hafi hins vegar aldrei gefist upp í leit að sannleikanum. Foreldrar þeirra, Edith og Arthur, eru nú látin. 

„Foreldrar okkar létust fullir samviskubits og þegar ég og Annie [eldri systir Elsie] ákváðum að fara með málið enn og aftur í fjölmiðla gerðum við það þar sem við vildum ekki fara í gröfina án þess að málið væri leyst,“ sagði hann í viðtali við BBC Radio 4 í dag. 

Colin og Annie biðla til allra þeirra sem kunna að búa yfir upplýsingum að stíga fram. „Við þurfum réttlæti fyrir Elsie og við þurfum réttlæti fyrir fólkið í Wakefield, sem hefur aldrei gleymt þessu máli.“

Nýjar vísbendingar komu fram í dagsljósið í útvarpsþætti á BBC þar sem m.a. var upplýst að stúlkan hefði látist fyrr en áður var talið og að til væru fimm innsiglaðar skýrslur um málið í skjalageymslu í London. 

Er lögreglan ákvað að taka málið til rannsóknar að nýju kom fram í tilkynningu hennar að þó að Elsie hefði látist fyrir mörgum áratugum hefði þjáningin sem fylgdi dauða hennar aldrei horfið. 

Lögreglan segir að ný vísbending hafi borist um ferðir manneskju við vettvang morðsins. Viðkomandi hafi aldrei verið yfirheyrður á sínum tíma. 

Um er að ræða karlmann sem sagður er hafa verið 25-30 ára á þeim tíma. Hann var á svörtu reiðhjóli með körfu framan á og í hvítum jakka, sem þykir m.a. benda til að hann hafi verið sendill, slátrari eða starfsmaður sláturhúss. 

Það var kona að viðra hundinn sinn sem gekk fram á lík Elsie snemma morguns. Í krufningarskýrslu kemur fram að hún hafi ekki verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Málið var algjör ráðgáta þar sem engin augljós ástæða var fyrir árásinni.

Verkamaður sem bjó á svæðinu, hinn 33 ára Ian Bernard Spencer, var ákærður fyrir morðið á sínum tíma. Fallið var frá ákærunni skömmu síðar. 

Fjölskylda Elsie var aldrei á því að Spencer væri morðinginn. Móðir Elsie, Edith, sagði í viðtali á þeim tíma: „Ég veit að Spencer og eiginkona hans hafa þjáðst og ég er glöð fyrir þeirra hönd að málinu er lokið. Ég veit að þau vilja jafn mikið og ég að hinn raunverulegi morðingi finnist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert