Auðkýfingur sem kom seint út úr skápnum

Stein Erik Hagen
Stein Erik Hagen Af vef Wikipedia

Norski auðkýfingurinn Stein Erik Hagen kom út úr skápnum fyrir framan rúmlega tvær milljónir sjónvarpsáhorfenda á föstudagskvöldið. Hagen, sem er 59 ára, segist hafa áttað sig seint á kynhneigð sinni.

Hagen er annar ríkasti maður Noregs en hann auðgaðist á rekstri matvörukeðjunnar RIMI sem hann stofnaði ásamt föður sínum árið 1977. Eignir hans eru metnar á 4,3 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 550 milljarða íslenskra króna. 

Í spjallþættinum Skavlan í norska ríkissjónvarpinu sagði Hagen að hann hefði smátt og smátt áttað sig á því að hann væri samkynhneigður. Hann segir að hann hafi ekki einu sinni vitað hvað samkynhneigð væri þegar hann var á tvítugsaldri. Hann hafi heyrt á það minnst en tengdi sig ekki við samkynhneigð. Þó svo að norska þjóðin hafi ekki vitað að Hagen væri samkynhneigður þá vissu báðar fyrrverandi eiginkonur hans og börn hans, fimm talsins, af því. Hagen og seinni eiginkona hans, Mille-Marie Treschow, skildu árið 2012 eftir átta ára hjónaband.

„Það að segja að ég sé hommi er kannski ekki alveg rétt,“ segir Hagen í viðtali við VG. „Ég er tvíkynhneigður og fyrir fjölskyldu mína, alla vini mína og alla þá sem þekkja mig þá eru þetta ekki nýjar fréttir. Það á einnig við þær sem hef verið kvæntur, þar á meðal Mille-Marie Treschow. Hún vissi þetta og það er ekki ástæðan fyrir því að við skildum,“ segir Hagen í viðtalinu.

Leder Bård Nylund, formaður samtaka samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks í Noregi, óskaði Hagen til hamingju með að vera kominn út úr skápnum og vonast til þess að þetta verði öðrum eldri hommum og lesbíum hvatning til þess  að koma út úr skápnum.

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert