Myrti 8 ára stúlku vegna hvolps

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

11 ára drengur skaut átta ára stúlku til bana í White Pine í Tennessee í Bandaríkjunum um helgina. Að sögn móður stúlkunnar neitaði dóttir hennar drengnum að leika með hvolp og var hún þá skotin.

Móðirin, Latasha Dyer, lýsti því þannig fyrir fjölmiðlum að dóttir hennar McKayla hafi verið úti í garði að leika sér þegar drengurinn kom og vildi fá að leika við hvolpinn. Stúlkan sagði einfaldlega „Nei“ og stuttu síðar var hún skotin.

„Þegar við komum fyrst til White Pine stríddi hann McKayla,“ sagði Dyer um drenginn í samtali við fjölmiðla fyrir utan heimili sitt í gær. „Hann gerði grín af henni, uppnefndi hana og var bara vondur við hana. Ég þurfi að fara til skólastjórans og kvarta og þá hætti hann. Síðan allt í einu í gær skaut hann hana.“

„Ég vil fá hana aftur í fangið mitt,“ sagði Dyer grátandi. „Þetta er ekki sanngjarnt, haldið í og kyssið börnin ykkar á hverju kvöldi því maður veit aldrei,“ sagði hún. „Ég vona að litli drengurinn læri sína lexíu því hann tók barnið mitt í burtu frá mér, og ég fæ hana aldrei aftur.“

G.W. „Bud“ McCoig, lögreglustjórinn í Jefferson sýslu sagði í samtali við fjölmiðla að drengurinn hafi verið ákærður fyrir morð og væri haldið í unglingafangelsi. „Við biðjum fyrir fjölskyldunum í þessum harmleik,“ sagði hann á blaðamannafundi.

Drengurinn var inni á heimili sínu þegar hann skaut stúlkuna með haglabyssu föður síns um klukkan 19:30 að staðartíma á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert