Mótmælendur rifu mannauðsstjórann úr skyrtunni

Tveir yfirmenn franska flugfélagsins Air France áttu fótum sínum fjör að launa þegar þeir neyddust til að flýja fund þar sem áætlaðar uppsagnir í fyrirtækinu voru ræddar. Mannauðsstjórinn Xavier Broseta og yfirmaðurinn Pierre Plissonnier þurftu að klifra yfir girðingu til þess að flýja reiða starfsmenn fyrirtækisins sem réðust inn á fundinn. Á fundinum var meðal annars rætt um áform fyrirtækisins um að leggja niður störf 2.900 starfsmanna.

Þegar fundurinn var í gangi réðust mörg hundruð starfsmenn flugfélagsins inn í höfuðstöðvar fyrirtækisins í Roissy.

KLM, móðurfélag Air France, sagði í dag að fyrirtækið myndi leita réttar síns vegna „ofbeldishegðunar“ starfsfólksins. Síðar í dag staðfesti flugfélagið áætluðu uppsagnirnar og sögðu þær hluta af stórri áætlun sem stendur til ársins 2020. Einnig stendur til að leggja niður flugleiðir félagsins til ýmissa áfangastaða í Indlandi og Suðaustur-Asíu árið 2017.

Það myndi hafa í för með sér að 1.700 störf á flugvöllum myndu tapast, sem og 900 störf flugliða og 300 störf flugmanna.

Samkvæmt frétt BBC komu mörg hundruð mótmælendur inn í bygginguna stuttu eftir að fjögur stéttarfélög sögðust hafa samþykkt verkfallsboðun.

Yfirmennirnir flúðu bygginguna í kjölfarið og sagði einn starfsmaður Air France að Broseta, hafi rétt svo sloppið frá því að vera myrtur af æstum múginum. Öryggisverðir hjálpuðu honum að flýja með því að klifra yfir girðingu en jakki hans og skyrta voru rifin af baki hans á meðan. Broseta sagði síðar í dag að blaðamannafundi að hegðun fólksins í dag endurspeglaði ekki ímynd starfsmanna fyrirtækisins.

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, hefur fordæmt ofbeldið ásamt efnahagsráðherranum Emmanuel Macron.

Hagnaður Air France hefur minnkað síðustu misseri vegna verkfalla flugmanna. Fyrirtækið þurfti að segja 5,500 manns upp á árunum 2012 til 2014 en í dag starfa um 52.000 manns hjá fyrirtækinu.

Xavier Broseta klifrar yfir girðingu til þess að flýja múginn. …
Xavier Broseta klifrar yfir girðingu til þess að flýja múginn. Þá var búið að rífa hann úr skyrtu og jakka. AFP
Xavier Broseta mætti á blaðamannafund fyrr í dag.
Xavier Broseta mætti á blaðamannafund fyrr í dag. AFP
Yfirmanninum Pierre Plissonnier í fygld öryggisvarða. Eins og sjá má …
Yfirmanninum Pierre Plissonnier í fygld öryggisvarða. Eins og sjá má reyndu mótmælendur að rífa hann úr skyrtunni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert