Árás á Genfarsáttmálann

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra krefjast þess að alþjóðleg sjálfstæð rannsókn verði gerð á loftárásum Bandaríkjahers á sjúkrahús samtakanna í borginni Kunduz í Afganistan. 22 létust í árásinni þar af 12 starfsmenn samtakanna.

„Við getum ekki reitt okkur á innanhúsrannsókn hersins,“ segir framkvæmdastjóri Lækna án landamæra, Joanne Liu. Heldur þurfi rannsóknin að beinast það því að grafa upp staðreyndir málsins. „Þetta er ekki bara árás á sjúkrahús okkar þetta árás á Genfarsáttmálann,“ segir Liu. „Þetta verður ekki liðið.“

Fjallað er um sáttmálann á Vísindavefnum:

„Genfarsáttmálinn eða Genfarsamningarnir öðru nafni eru í raun fjórir alþjóðasamningar sem samþykktir voru árið 1949 með tveimur frekari viðbótum árið 1977. Þetta eru alþjóðleg mannúðarlög sem hafa það að markmiði að vernda þá sem ekki taka beinan þátt í ófriði fyrir afleiðingum átakanna. Er hér aðallega átt við óbreytta borgara, særða og sjúka hermenn, stríðsfanga og starfsfólk hjálparsamtaka.“

Liu lét þessi ummæli falla í morgun en í gær staðfesti John Campell, herforingi í Bandaríkjaher, að um hörmuleg mistök hafi verið að ræða.

Rannsókn líkt og Læknar án landamæra fara fram á hefur aldrei verið gerð fyrr en um sjálfstæða rannsóknarnefnd er að ræða sem byggir á alþjóðlegum lögum. Þar yrði staðreyndum safnað saman en ekki gefin út ákæra. Samtökin hafa sagt loftárásirnar stríðsglæpi en þau hættu starfsemi í Kunduz í kjölfar árásarinnar. 

Þrjár rannsóknir eru þegar hafnar, ein af hálfu Bandaríkjamanna, ein á vegum Afganistan og ein hjá Atlantshafsbandalaginu.

 Samtök hernaðarandstæðinga hafa sent frá sér ályktun vegna málsins:

„Siðferðislegt gjaldþrot hernaðar Nató-ríkja í Afganistan var
fullkomnað á dögunum með árás Bandaríkjahers á sjúkrahús Lækna án
landamæra, þar sem fjöldi fólks lét lífið. Árásaraðilar hafa svo gott
sem viðurkennt að sprengjunum hafi verið varpað á sjúkrahúsið af
yfirlögðu ráði. Það er viðbjóðslegur stríðsglæpur, en þó ekki úr takti
við blóðidrifna sögu vestrænna herja í landinu allt frá byrjun
stríðsins árið 2001.

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ hefur nú staðið í á fimmtánda ár, knúið
áfram af sturluðum ranghugmyndum um að koma megi á friði með því að
varpa sprengjum úr orrustuþotum eða ómönnuðum flygildum á skotmörk á
jörðu niðri. Niðurstaðan er sífellt sú sama: dráp á óbreyttum borgurum
og aukin olía á eld andstæðinganna.

Ísland ber sem Nató-ríki fulla ábyrgð á dauða fólksins á sjúkrahúsinu
í Kunduz, sem og þeirra þúsunda afgönsku borgara sem vestræn
hernaðaryfirvöld líta á sem óhjákvæmilegan meðafla í nútímavæddum
stríðsrekstri sínum. Það er einhver ljótasti bletturinn í stuttri sögu
okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.

Kviksyndið í Afganistan hefur þó engu breytt um aðferðir og
hugmyndafræði Nató-ríkja. Sama trúin á sömu aðferðirnar er við lýði
víða um lönd, þar Bandaríkjastjórn og fylgiríki þeirra fótum troða
alþjóðalög á degi hverjum með hátæknihernaði úr lofti. Þess verður
vart langt að bíða uns við gröndum næsta spítala.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert