Borgarstjórinn segir af sér

Ignazio Marino tók við embætti 2013.
Ignazio Marino tók við embætti 2013. AFP

Borgarstjóri Rómarborgar, Ignazio Marino, hefur sagt af sér vegna ásakana þess efnis að hann hafi greitt fyrir mat á veitingastöðum með opinberu fé.

Marino neitar ásökununum en bauðst til þess að greiða til baka 20 þúsund evrur (2,8 milljónir íslenkra króna) snemma í morgun. Síðar í dag greindi hann frá því að hann myndi segja af sér eftir að í ljós kom að flokkur hans stæði ekki lengur á bakvið hann. BBC segir frá þessu.

Marino hefur áður verið gagnrýndur fyrir störf sín sem borgarstjóri. Kallað var eftir því á síðasta ári að hann myndi segja af sér eftir að upp komst að hann hefði ekki greitt fjölmargar stöðumælasektir. Fylgi hans hrapaði jafnframt töluvert eftir að spilling komst upp í borgarstjórninni.

Marino tók við sem borgarstjóri 2013. Hann hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að stöðva ekki glysgjarna útför meints mafíuforingja í ágúst.

Í dag sagði Marino að ekki væri hægt að líta á afsögn hans sem viðurkenningu á sök en sagði að „pólitískar aðstæður“ gerðu honum ekki kleift að halda áfram sem borgarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert