Borga í perlum fyrir kornungar stúlkur

Samburu Girls-stofnunin hjálpar stúlkum að öðlast betra líf.
Samburu Girls-stofnunin hjálpar stúlkum að öðlast betra líf. Skjáskot

„Þegar ég var níu ára lét faðir minn mig giftast manni sem var 78 ára,“ segir hin 13 ára Younis. Hún er ein fjölmargra stúlkna sem hafa leitað skjóls hjá konu í heimalandinu Kenía. Stúlkurnar vilja ekki vera barnabrúðir, að kynfæri þeirra séu skorin og skemmd eða að þær séu lánaðar til að svala fýsnum karlkyns ættingja sinna, líkt og hefð er fyrir meðal sumra þjóða Kenía. Konan sem skýlir þeim var eitt sinn í þeirra sporum. Líkt og Younis var Josephine Kulea alin upp í hefðum Samburu-þjóðarinnar. Þrátt fyrir að kynfæralimlestingar og fleiri fornar hefðir séu ólöglegar í Kenía eru þær enn stundaðar. Í Kenía er kynfæri um 27% stúlkna skorin. Ástandið er enn verra í Sómalíu, Súdan og Egyptalandi þar sem talið er að yfir 90% stúlkna séu limlestar á kynfærum. 

Samburu-þjóðin býr aðallega í norðurhluta Kenía og einnig í nágrannaríkinu Sómalíu. Hefðum þeirra svipar til hinnar þekktu Massai-þjóðar sem heldur til sunnar í landinu. 

Younis og aðrar stúlkur hætta á að vera útskúfaðar úr fjölskyldum sínum með því að hafna hefðum á borð við að ganga barnungar í hjónaband. Í fréttaskýringu CNN um málið er haft eftir Younis að hún hafi verið í eina viku hjá gamla manninum sem faðir hennar krafðist að hún giftist. „Hann sagði að ég yrði þriðja konan hans, en ég vildi bara fara aftur í skóla. Ég sagði honum að ég myndi ekki giftast honum og þá barði hann mig.“

En Younis ætlaði sér að komast burt. Hún heyrði af konu sem hjálpaði börnum í hennar sporum. „Ég gekk langa leið berfætt. Ég kom svo til Maralal og þar tók Kulea á móti mér, hún bjargaði mér.“

Younis gengur nú í heimavistarskóla og í þeim skóla eru átta stúlkur sem voru í sömu aðstæðum og hún. Þeim var bjargað fyrir tilstilli Samburu Girls-stofnunarinnar sem Kulea stofnaði. Í huga þessara stúlkna og um 200 til viðbótar er Kulea „mamma Kulea. Þegar fjölskyldur þeirra afneituðu þeim gekk hún þeim í móðurstað. 

Fagnar menningunni en vill breytingar

Kulea lærði hjúkrun og í náminu komst hún að því að Samburu-fólkið, þjóðin sem hún tilheyrði, var það eina í Kenía sem enn stundaði kynfæralimlestingar á stúlkum. 

„Ég áttaði mig á því að ýmislegt var ekki í lagi og að ég yrði að gera eitthvað, þess vegna fór ég að bjarga stúlkum.“

Kulea hóf björgunarstarfið árið 2011 með því að taka tvær frænkur sínar að sér. Gifta átti aðra þeirra aðeins tíu ára gamla. „Þegar gifta á stúlkur ungar þá eru kynfæri þeirra skorin fyrst,“ segir Kulea við CNN-fréttastofuna. Kulea tók því frænku sína að sér. Viku síðar var henni engu að síður boðið í brúðkaup. Þegar hún sagði að unga brúðurin væri hjá henni, var henni sagt að gifta ætti yngri systur hennar. Sú var aðeins sjö ára. Kulea brást skjótt við og tók þá stúlku einnig úr þorpinu. 

Frá árinu 2011 hafa kynfæralimlestingar verið ólöglegar í Kenía. Því getur Kulea unnið í samstarfi við lögregluna að björgun stúlknanna. Hún tekur þó oft mikla áhættu. Margir af Samburu-þjóðinni eru alls ekki á því að breyta eigi hefðum fólksins. Aðrir vilja þó sjá breytingar og margar mæður setja sig í samband við Kuleu og biðja um hennar hjálp þegar gifta á dætur þeirra. 

Þorp Samburu-fólksins eru mjög afskekkt. Þar er ekkert rafmagn eða rennandi vatn. Aðeins 5% þjóðarinnar eru læs og skrifandi. Til að ná til fólksins er Kulea með útvarpsþátt, þannig frétta margar mæðurnar af björgunarstarfi hennar. 

Ein hefð Samburu-þjóðarinnar felst í því að karlar greiða í perlufestum fyrir kynferðisleg afnot af kornungum stúlkum, áður en þær eru giftar. Þessi perlukaup eru líkt og kynfæralimlestingar ólögleg í Kenía. 

Kulea segist þrátt fyrir allt vera stolt af því að vera Samburu-kona. Hún klæðist þjóðbúningi þeirra og dansar dansana sem hún lærði sem barn. Hún segir hins vegar nauðsynlegt að konur og stúlkur taki virkari þátt í samfélaginu, að þær fái tækifæri til mennta og sjálfstæðis.

„Það er von,“ segir hún við fréttamann CNN. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert