Lentu á Grænlandi vegna bilunar í kaffivél

AFP

Farþegaþota á vegum SAS-flugfélagsins sem var á leið frá Svíþjóð til Bandaríkjanna varð að lenda í öryggisskyni á Grænlandi í gær vegna bilunar í kaffivél.

Gert er ráð fyrir því að þotan geti haldið áfram för í dag en um Airbus 330 þotu er að ræða. Alls voru 146 farþegar um borð í þotunni sem var að koma frá Stokkhólmi á leið til Chicago.

Talskona SAS, Anneli Alanko, segir að reykjarlykt hafi fundist í farþegarými vélarinnar og væntanlega skýrist það af skammhlaupi í kaffivél. Ákveðið var að lenda þotunni í öryggisskyni en ljós í farþegarýminu slokknuðu.

Hún segir að lendingin hafi verið með eðlilegum hætti og að allir farþegarnir hafi haldið ró sinni. Allir fengu gistingu á hóteli í nótt og verður lagt af stað fljótlega frá Grænlandi til Chicago.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert