Trump mótmælt í New York

Donald Trump kom fram í gamanþættinum Saturday Night Live í gærkvöldi, en þættirnir eru sýndir í beinni útsendingu. Hann var strax truflaður í fyrsta atriði hans þegar áhorfandi úr sal kallaði hann „rasista“.

Það kom hins vegar í ljós að þarna var gamanleikarinn Larry David á ferð. Hann spaugaði með það að hann vildi í framhaldinu fá verðlaun frá mannréttindasamtökum sem hafa gagnrýnt Trump harðlega vegna afstöðu hans gagnvart innflytjendum frá Mexíkó, að því er segir á vef BBC.

„Ég frétti af því að ef ég myndi hrópa þetta þá myndu þau gefa mér 5.000 dali,“ sagði David. 

Trump sagðist hafa fullan skilning á því sem kaupsýslumaður.

Samtökin, sem nefnast Deport Racism, skrifuðu á Twitter að David hefði hlotið verðlaunin. 

Trump sagði í kjölfarið við áhorfendur að hann væri þarna mættur til að sýna fram á að hann gæti tekið gríni.

Fram kemur á vef BBC, að ummæli Davids hafi verið einu mótmælin inni í upptökuveri NBC-sjónvarpsstöðvarinnar. Fyrir utan húsnæðið höfðu hins vegar mótmælendur safnast saman til að mótmæla ummælum Trumps um innflytjendur. 

Trump er þekktur fyrir allt annað en að varkár í orðavali. Þegar hann lýsti því yfir að hann myndi sækjast eftir útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins, lét hann þau orð falla að innflytjendur frá Mexíkó væru fíkniefnainnflytjendur og kynferðisafbrotamenn. 

Skömmu eftir þetta ákvað NBC að hætta við að sýna Ungfrú Bandaríkin og Ungfrú alheimur, sem Trump á að hluta. Sjónvarpsstöðin sagði að þetta væri gert af virðingu við alla, sem væri hornsteinn bandarískra gilda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert