Dæmdur til dauða og heiðraði Hitler

Frazier Glenn Cross,
Frazier Glenn Cross, AFP

Bandarískur dómari dæmdi kynþáttaníðing til dauða í gærkvöldi fyrir að drepa þrjá gyðinga í tveimur miðstöðvum gyðinga. Þegar dómarinn las upp dóminn svaraði sá dæmdi með nasistakveðju (heill Hitler).

Frazier Glenn Miller Jr, 74 ára, gerði árás á miðstöðvar gyðinga í Kansas í fyrra og verður hann tekinn af lífi með lyfjum.

Dómarinn, Thomas Kelly Ryan sagði við dómsuppkvaðninguna að tilraun hans til þess að smita samfélagið af hatri hafi mistekist.  Miller var fluttur á brott úr réttarsalnum eftir nasistakveðjuna, samkvæmt frétt BBC.

Miller var dæmdur fyrir morð, þrjár morðtilraunir, árás og vopnaburð. Miller, sem einnig er þekktur undir nafninu Frazier Glenn Cross, varði sig sjálfur við réttarhöldin.

Hann játaði að hafa drepið William Corporon, 69 ára og barnabarn hans Reat Griffin Underwood, 14 ára fyrir utan miðstöð gyðinga í Overland Park, Kansas. Hann játaði einnig að hafa myrt Terri LaManno, 53 ára við aðra miðstöð gyðinga.

Miller sagði við réttarhöldin að hann vissi að hann yrði sendur á dauðadeild og það skipti hann engu máli hvaða refsingu hann fengi. Hann hafi viljað drepa gyðinga áður en hann myndi deyja því þeir hefðu allt of mikil völd.

Áður en hann framdi morðin var hann virkur í samtökum kynþáttahatara sem hafa ofurtrú á mátt hvíta mannsins. Hann var uppljóstrari á vegum bandarísku alríkislögreglunnar.

Morðinginn var uppljóstrari FBI

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert